Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Unglingaskák

NM framhaldsskólasveita: MR tapaði í fyrstu umferð

Ólafur H. ÓlafssonSkáksveit Menntaskólans í Reykjavík tapaði fyrir norski sveit 1½-2½ í 1. umferð Norðurlandamóts framhaldsskólasveita, sem fram fer um helgina í Lundi í Svíþjóð.   Hilmar Þorsteinsson vann sína skák, Aron Ingi Óskarsson gerði jafntefli en Guðmundur Kjartansson og Helgi Egilsson töpuðu.  Önnur umferð fer fram í kvöld.

 

 

 

 

 

Úrslit í viðureign MR:

1. Gudmundur Kjartansson - Espen Forså 0-1
2. Aron Ingi Oskarsson - Joachim Thomassen ½-½
3. Hilmar Porsteinsson - Ander Hagen 1-0
4. Helgi Egilsson - Lin Jin Jörgensen 0-1

Úrslit 1. umferðar:

Svíþjóð I - Svíþjóð II 3-1
MR - Noregur  1½-2½
Finnar sátu yfir

Sveit MR: 

  1. FM Guðmundur Kjartansson (2306)
  2. Aron Ingi Óskarsson (1871)
  3. Hilmar Þorsteinsson  (1855)
  4. Helgi Egilsson (1710)
  5. Garðar Sveinbjörnsson (1480)

Liðsstjóri  MR er Ólafur H. Ólafsson.

Mynd: Ólafur H. Ólafsson fylgist með á skákstað.   

Heimasíða mótsins 

 


NM grunnskólasveita: Laugalækjaskóli vann í fyrstu umferð

Skáksveit Laugalækjaskóla sigraði norska skáksveit 2½-1½ í fyrstu umferð Norðurlandamóts grunnskólasveita, sem fram fór í morgun.   Matthías Pétursson og Einar Sigurðsson unnu sínar skákir, Daði Ómarsson gerði jafntefli en Vilhjálmur Pálmason tapaði.

Úrslit 1. umferðar:

  • Noregur - Laugalækjaskóli 1½-2½
  • Finnland II - Finland I 2-2
  • Danmörk - Svíþjóð 1-3

Skáksveit Lauglækjaskóla:

  1. Daði Ómarsson
  2. Vilhjálmur Pálmason
  3. Matthías Pétursson
  4. Einar Sigurðsson
  5. Aron Ellert Þorsteinsson
Liðsstjórar: Torfi Leósson og Sigríður Ström 

Heimasíða mótsins


Unglingaæfingar Hellis hefjast í dag

Barna- og unglingaæfingar Hellis hefjast aftur mánudaginn 27. ágúst 2007. Taflið byrjar kl. 17:15 og fyrirkomulagið verður það sama og síðasta vetur.  Æfingarnar eru opnar öllum 15 ára og yngri. Engin þátttökugjöld.

 

Æfingarnar verða haldnar í félagsheimili Hellis í Álfabakka 14a, Mjódd. Inngangur er við hliðina á Sparisjóði Reykjavíkur en salur félagsins er á þriðju hæð hússins. Á æfingunum verða 5 eða 6 umferðir með umhugsunartíma 10 eða 7 mínútur. Einnig verður farið í dæmi og endatöfl eins og tíma vinnst til. Umsjón með unglingaæfingunum hefur Vigfús Ó. Vigfússon.



Enginn ævintýraendir

Ólympíulið ÍslandsÞað var enginn ævintýraendir á þátttöku Íslands á Ólympíuskákmóti undir 16 ára í borg hinna grænu garða, Singapore.

Andstæðingurinn í síðustu umferð var óheppilegur, svo ekki sé meira sagt, en það var skáksveit Uzbekistan sem settist andspænis okkur.  Sem kunnugt hafa skákmenn frá fyrrum  Sovétlýðveldunum það orð á sér að vera vel menntaðir og skákfræðunum og agaðir.

Við töldum því ekki líklegt að þeir myndu gera neitt vanhugsað í síðustu umferð eða sýna einhver þreytumerki.  Samt sem áður vorum við staðráðnir í að gefa ekki þumlung eftir og setja pressu á Uzbekana.

Að ná 2-2 úrslitum gegn svo sterkri sveit hefði verið frábært.  Ævintýradraumurinn var hinsvegar að við myndum allir tefla okkar bestu skákir og ynnum 3-1 eða meira.  Í því tilfelli var möguleiki á að lenda í einu af 6 efstu sætunum, en þau gefa verðlaun.

Ekki fór það svo vel.  Daði fékk unnið út úr byrjuninni og var við það að innbyrða vinninginn þegar hann lenti í svínslegu máttrikki.  Eina leiðin til að forðast mát var að gera ekki neitt - eða það sýndist honum.  Jafntefli varð því niðurstaðan.  Hugsanlega var til leið til sigurs í lokastöðunni, en það var erfitt að sjá hana og í liðakeppni sem þessari vilja menn ekki hætta á of mikið.

Á 1. borði lenti Sverrir í endataflssvíðingi, en hann lék eitthvað ónákvæmt og það nægði andstæðingi hans til sigurs.  Ingvar lagði allt í sölurnar á 2. borði og fórnaði liði, en það gekk því miður ekki upp.

Þegar þarna var komið við sögu var ljóst að enginn ævintýraendir yrði á þessari þátttöku okkar.  Fyrir okkur skipti í sjálfu sér ekki öllu máli hvort við lentum í 10. eða 20. sæti - aðalatriðið var að reyna að sýna sitt besta andlit og reyna að berjast við sterkustu sveitirnar á jafnréttisgrundvelli.

Engu að síður lét Matti ekki hugfallast á 4. borði, þó sveitin hefði að engu að stefna lengur.  Hann varðist í endatafli með peði minna og rétt missti ef jafntefli - ef hann hefði leikið hrók sínum á annan reit en hann gerði (en með sömu hugmynd) hefði jafnteflið verið tryggt.

Úrslitin því:

Ísland - Uzbekistan 0,5-3,5

Þegar þetta er skrifað er ekki ljóst í hvaða sæti sveitin endar.

Vinningar sveitarinnar: 20,5

1. borð:    Sverrir Þorgeirsson 4,5 af 9
2. borð:    Ingvar Ásbjörnsson 3 af 9
3. borð:    Daði Ómarsson 5,5 af 8
4. borð:    Helgi Brynjarsson 4 af 7
vm.:        Matthías Pétursson 3,5 af 7

Sverrir átt nokkuð jafnt mót.  Um miðbikið tapaði hann nokkrum í röð gegn sterkum andstæðingum, en svo tefldi hann sína bestu skák (rúmlega 100 leikja skák gegn Suður-Afríkumanninum) og rétti úr kútnum í kjölfarið.

Þetta verður sjálfsagt mót sem Ingvar vill gleyma sem fyrst.   Lánleysi hans var algjört.  Hvað eftir annað byggði hann upp betri stöður eða vinningsstöður, en glopraði því niður í jafntefli eða tap.

Daði byrjaði illa og tapaði tveimur fyrstu.  Þá fékk hann hvíld og kom hungraður til leiks og ef hann hefði unnið Uzbekann, hefði hann unnið allar eftir hvíldina.

Helgi og Matti tefldu báðir upp og ofan.  Þeir tefldu stundum ágætlega, en stundum síðra.

Fyrir utan það að vera góð keppni, er þetta mót tilvalið tækifæri til að kynnast skákmenntun annarra landa.  Ég hef áður vikið að kerfisbundinni þjálfun ungra barna hér í Suð-Austur Asíu, sem ég held að sé eitthvað sem við ættum að taka til athugunar á Fróni.

Þar fyrir utan má gera samanburð á íslensku skákmönnunum og hinum.  Íslendingarnir tefldu oft betur í endatöflunum á neðri borðunum.  Strákarnir voru gjarnan meira skapandi í aðgerðum sínum og eyddu meiri tíma en andstæðingar þeirra, sem virtust vera þjálfaðri í taktík og agaðri í tímanotkun og ákvarðanatöku.

Sú taflmennska sem Íslendingarnir sýndu var gjarnan skemmtilegri frá skapandi sjónarmiði, en mörg meistaraverkin eyðilögðust út af tímanauð eða taktískum yfirsjónum.  En þarna held ég að það komi til sögunnar að okkar menn hafa ekki notið jafn mikillar kerfisbundinnar þjálfunar í taktík á yngri árum.

Að lokum vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu fyrirtækjum og einstaklingum sem styrktu okkur til ferðarinnar, svo og öllum þeim sem hvöttu okkur til dáða og hugsuðu til okkar.

Ekki síður vil ég þakka umsjónarmönnum skak.is - en síðan að netið hrundi á hótelinu hafa þeir séð um að birta allar fréttirnar héðan.

Ég held að þessi keppni sé góður vettvangur fyrir íslensk unglingalandslið og mér fyndist ekki óeðlilegt að stefnt væri að fara í slíka ferð annað hvert ár.  A.m.k. finnst mér ekki að það ættu að líða 10 ár þangað til farið verður næst, eins og nú hefur gerst.

Torfi Leósson

Athugasemd ritstjóra:  Íslenska liðið hafnaði í 17. sæti.  Indverjar urðu ólympíumeistarar.  

Ég vil þakka Torfa fyrir afar skemmtilega pistla sem gefa fréttum af skákmótum miklu meira heldur en bein fréttaskrif skrifuð heima á Íslandi!   Þetta er eitthvað sem Skák.is hyggst auka í framtíðinni. Takk kærlega Torfi!

 


Annar sigur sem hefði átt að vera stærri

Singapore - 9. umferðÞað er nokkuð ljóst að íslensku strákarnir hafa hresst sig við eftir frídaginn í gær.  Í morgun unnu þeir 3-1 og í dag var sveit Víetnama lögð með minnsta mun 2,5-1,5 og hefði sigurinn auðveldlega getað orðið stærri.

Þó var nokkur beygur í mér fyrir upphaf viðureignarinnar.   T.d. gat ég ekki stillt Daða upp, manni sem var búinn að vinna 5 skákir í röð.  Ástæðan fyrir því sú að hann var einfaldlega of þreyttur - búinn að gefa allt í þetta.  Ég vona þó að hann geti teflt á morgun.

Samt sem áður, ræddi ég við strákana um það að nú væri okkar tækifæri til að sýna hvað í okkur býr.  Við erum búnir að vera að ná miðlungsúrslitum gegn miðlungsliðum, en þarna er eitt af betri liðunum og því tækifæri til að sýna okkar rétta andlit.

Allt gekk svo eins og í sögu - næstum því.

Sverrir tefldi rólega á 1. borði, en það var útplanað og hugsað til að setja pressu á stigahærri andstæðing hans.  Markmiðið var að fá andstæðinginn til að gera eitthvað vanhugsað og djarft.  Það gekk upp og Sverrir gekk á lagið og innbyrti góðan sigur.

Matti vann einnig á 4. borði, en andstæðingur hans virtist lítið kunna í byrjunum og lenti snemma illa í því.

Á 3. borði var Helga komið á óvart í byrjuninni.  Hann beit bara á jaxlinn og náði loks örlítið betri stöðu, en samdi því hann átti lítinn tíma eftir.

Ingvar var á góðri leið með að tefla snilldarsvíðing.  Hann hafnaði jafnteflisboði þrisvar sinnum, en á ögurstundu yfirsást honum gagnfæri andstæðingsins og varð að gefa mann fyrir frípeð.  Í endataflinu reyndist ekki hægt að bjarga málunum.  Gremjulegt, en lánleysi Ingvars hefur verið algjört í þessu móti.

Af öðru er að frétta að Ungverjarnir eru komnir á fljúgandi siglingu eftir frídaginn.  Þeir unnu 4-0 í morgun og mér sýnist stefna í önnur slík úrslit núna.  Hver er ástæðan fyrir þessum viðsnúningi?  Það verður að segjast að þeir, eins og við, koma langt að og dagskráin er rosalega stíf.  Álagið er
náttúrulega mest fyrst.

Einhverjir eru kannski hissa á slökum árangri Bandaríkjamanna.   Það verður að koma fram að þeir stilla ekki upp sínu sterkasta liði hér.  Allt liðið kemur frá einu svæði á Vesturströndinni - hugsanlega bara einum skóla - en margir foreldranna koma frá Singapore.

Torfi Leósson

Góður sigur - hefði mátt vera stærri

Sverrir Þorgeirsson, Ingvar Ásbjörnsson, Daði Ómarsson og Matthías PéturssonÞau voru ekki há í loftinu, hnokkarnir og hnáturnar úr liði 4 frá Singapore sem settust andspænis okkur í morgun í 8. umferð.

Smæð þeirra blekkti okkur þó ekki.  Í gegnum þetta ferðalag höfum við kynnst þvílíkum tökum skák meðal barna hefur verið tekin hér á landi.  Mörgu grettistakinu hefur verið lyft þar og sem dæmi má nefna ASEAN skákakademíuna, en þar vinna fjölmargir þjálfarar, bæði Evrópskir og Asískir.

Ennfremur byrjar þjálfunin snemma - haldin eru sérmót fyrir 4-6 ára.

Afleiðingin er sú að þetta land, sem hefur ekki verið mikið þekkt fyrir skák hingað til, er að ala upp unga titilhafa og titilveiðara og öll fjögur liðin þeirra eru að standa sig fantavel á Ólympíumótinu.

Við höfðum þetta í huga þegar við settumst til leiks.

Ingvar tefldi fantavel á 2. borði, fórnaði manni snemma, sem andstæðingur hans varð að gefa til baka og peð að auki.  Þegar úrvinnslan ein var eftir varð Ingvari á meinleg ónákvæmni og
andstæðingur hans var fljótur að stökkva á taktískan möguleika.  Okkar maður sá ekkert betra en að taka jafnteflinu og þá bókstaflega hoppaði hinn 11 ára gamli andstæðingur hans í loft upp af einskærri gleði.

Daði og Matti tefldu hinsvegar öruggt á 3. og 4. borði og innbyrtu góða sigra, Daði sinn fimmta í röð.

Á 1. borði lenti Sverrir í smá beyglu, en náði að losa sig úr henni og fá virkt spil.  Það reyndist þó aðeins duga til jafnteflis.

Strákarnir hefðu helst kosið að vinna þessa sveit 4-0, en ef við lítum á björtu hliðina, þá höfum við ekki unnið jafn öruggan 3-1 sigur síðan í 2. umferð.

Torfi Leósson


Sjaldan er ein báran stök

Sverrir Þorgeirsson, Ingvar Ásbjörnsson, Daði Ómarsson og Helgi BrynjarssonHér í Singapore er sjaldan ein báran stök - eða eins og heimamenn myndu segja: "It never rains but it pours".

Í 7. umferð mættum við liði Suður-Afríku.  Þetta er fjórða miðlungsliðið í röð sem við mætum.  Ávallt höfum við mætt ákafir til leiks, ákveðnir í að vinna 3-1 eða þaðan af stærra og komast aftur á efri borðin svo við getum sannað okkur í keppni meðal þeirra bestu.

En úrslitin urðu sem fyrr á annan veg.

Á 4. borði rambaði andstæðingur Helga á snöggan blett í byrjanaundirbúningi hans - og þetta var einmitt hættuleg byrjun þar sem það er dýrt að vera ekki með algjörlega allt á hreinu.  Tap var því niðurstaðan.

En sjaldan er ein báran stök, því Ingvar lenti líka í miklu klandri í byrjuninni og tapaði tveimur tempóum snemma.  Það er náttúrulega dýrt, sérstaklega þar sem andstæðingurinn heitir
Hercules (ég er ekki að grínast!).  Hercules þessi, sem er hrokkinhærður, bólugrafinn, risavaxinn unglingur - afskaplega viðkunnanlegur - sýndi engin grið og Ingvar varð að gefast upp eftir langa endataflsþjáningu.

Strákarnir náðu þó að svara fyrir sig.  Daði fékk Drekaafbrigðið í Sikileyjarvörn upp í þriðja skiptið í þessu móti.  Það fór eins og allar aðrar skákir hans í þessu hvassa afbrigði að sigurinn lenti hans megin og skipti engu máli þó hann tefldi með hvítt að þessu sinni.  Þetta var fjórði sigur Daða í röð.

Sverrir framkvæmdi hinsvegar einn fallegasta svíðing sem undirritaður hefur séð.  Fyrst virtist andstæðingur hans vera búinn að ná að þráleika í endatafli, en þá fann Sverrir brellna leið til að vinna skiptamun fyrir peð.  Að lokum kom upp endatafl þar sem Sverrir hafði hrók og peð gegn riddara og tveimur peðum.  Með því að setja andstæðinginn hvað eftir annað í leikþröng tókst Sverri að vinna bæði peðin, en þá var samt enn nokkur úrvinnsla eftir, því Sverrir var með kantpeð og andstæðingur hans lagði hvað eftir annað pattgildrur fyrir hann.  Sverri tókst þó að sjá við þessu öllu og hafði sigur og tryggði okkur þar með jafntefli í viðureigninni.

Annars má þess geta að liðsstjóri Suður-Afríku, sem er hinn viðkunnanlegasti náungi - hefur mikinn áhuga að fá Hróksmenn í heimsókn næst þegar þeir heimsækja Namibíu.  Það gæti án efa
verið sniðug hugmynd, því það virðist vera uppgangur í skákinni í Suður-Afríku.

En sjaldan er ein báran stök.

Eftir skák Sverris, sem var yfir 100 leikir, vorum við tveir einir eftir af íslenska liðinu og svo virðist sem síðasta rútan hafi farið án okkar.  Við þurftum því að labba meiripartinn af leiðinni heim. Síðan þegar á hótelið var komið var of seint til að vera að skrifa pistill.  Daginn eftir lá netaðgangurinn niðri.  Í dag tókst mér loksins að komast í internet hér á skákstaðnum.

Torfi Leósson


Jafntefli gegn Suður-Afríku

Íslenska liðið, sem keppir á ólympíuskákmóti 16 ára og yngri í Singapore, gerði 2-2 jafntefli gegn Suður-Afrískri sveit í 7. umferð, sem fram fór í dag.

Sverrir Þorgeirsson og Daði Ómarsson unnu sínar skákir en Ingvar Ásbjörnsson og Helgi Brynjarsson töpuðu.

Íslenska liðið hefur 14,5 vinning að 28 mögulegum og er í 14. sæti.  Indverjar eru enn efstir þrátt fyrir 1-3 tap gegn Filippseyingum.  

Frídagur er á morgun en í 8. umferð, sem fram fer á föstudag, tefla strákarnir okkar við sveit frá Singapore.

Við fáum svo vonandi nánari fréttir frá Torfa liðsstjóra síðar í dag!    

 


Lágmarkssigur á Japan

Sverrir Þorgeirsson og Daði ÓmarssonÍslenska sveitin virðist föst í einhverju miðjumoði um mitt ólympíumótið hér í Singapore.  Úrslitin eru ýmist 2,5-1,5 eða 1,5-2,5. 

Viðureign okkar í dag, gegn Japan, hófst reyndar vel, en bæði Daði og Helgi unnu á innan við 2 tímum.  Skák Helga var t.a.m. aðeins 18 leikir.

Hinar tvær skákirnar voru hinsvegar langar og þar reyndust Japanarnir fastari fyrir.

Á 1. borði lenti Sverrir snemma í hálfgerðri beyglu snemma.  Hann varðist þó af þolinmæði, en afréð að lokum að gefa tvö peð til að virkja menn sína og einfalda stöðuna.  Japaninn tefldi bara allt of vel og sigurinn lenti hans megin. 

Enn lengri var skák Matta á 4. borði, en í jafnri stöðu gerði hann þau mistök að vanmeta færi andstæðingsins.  Á mikilvægu augnabliki fann Japaninn ekki leið sem hefði getað haldið pressunni gangandi og Matti nýtti tækifærið til að einfalda stöðuna og upp kom jafnteflislegt endatafl sem keppendur sömdu á. 

Sem sagt:  

Ísland - Japan 2,5-1,5 

Af öðru er það að segja að Indverjarnir eru gjörsamlega að strauja mótið.  Þeir unnu Ungverja, stigahæstu sveitina, 3,5-0,5 í gær og svo Tyrki með sama mun í morgun.

Indverjarnir eru nú með 19 vinninga eftir sex umferðir og þriggja vinninga forskot á næstu sveit.  Enda hefur það komið í ljós að það er ekki allt að marka stigin hjá krökkunum.

Filippseyingar eru t.d. með þrjá stigalausa á 2.-4. borði en eru samt í 2. sæti með 16 vinninga.  Á fyrsta borði er síðan undrabarnið Wesley So, AM með 2516 sem ég held að eigi stutt eftir í SM-titilinn.

Torfi Leósson


Sigur gegn Japan

Ólympíulið ÍslandsÍslenska liðið vann sigur á japönsku liði 2,5-1,5 í 6. umferð ólympíuskákmóts 16 ára og yngri, sem fram fór í nótt.   Daði Ómarsson og Helgi Brynjarsson unnu sínar skákir, Matthías Pétursson gerði jafntefli en Sverrir Þorgeirsson tapaði.

Sveitin er nú í 16. sæti með 12,5 vinning af 24 mögulegum.  Indverjar leiða á mótinu, hafa 19 vinninga.  

Í 7. umferð, sem fram fer síðar í dag, teflir íslenska sveitin við suður-afríska sveit.

Torfi Leósson mun án efa gera umferðinni í morgun betur skil hér síðar í dag.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.8.): 7
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 130
  • Frá upphafi: 8779236

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 99
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband