Leita í fréttum mbl.is

EM Landsliða - Liðsstjórapistill 7. umferðar

EM2017_7th_CzeViðureign 7. umferðar var gegn sterku liði Tékka. Tékkarnir státa af hinum feykisterka David Navara á fyrsta borði en hann hefur nú lengi verið yfir 2700 elóstigum og er mjög nálægt því að vera í hópi elítuskákmanna. Annað borðið hjá þeim er einnig sterkt með 2650 elóstig og svo eru hinir þrír stórmeistararnir allir nokkuð þéttir. Það var reyndar vitlaust munað hjá mér í gær að þeir væru númer 13 í stigaröðinni þar sem þeir eru númer 11 í stigaröðinni!

Ungverjar og Rússar voru efstir fyrir þessa umferð og mættu Ungverjar Azerum á meðan Rússar öttu kappi við Króata.

 

Viðureign dagsins var erfið en skoðum hana í sömu tímaröð og skákirnar kláruðust.

 

2. borð Hjörvar hvítt á Laznicka

 EM2017_7th_HSG

"Rematch" á öðru borði. Hjörvar og Laznicka tefldu einnig í Baku þar sem Hjörvar vann góða skák sælla minninga. Móttekið drottningarbragð var á boðstólnum þá en að þessu sinni var það Chebanenko Slabbi sem Hjörvar hafði nokkurn veginn giskað á.

EM 2017_7nd_Hjorvar1

Laznicka er nokkuð mikill teóríuhestur og kannski kom það full mikið á daginn í þessari skák. Undirbúning Hjörvars var Dd1 hér sem er ekki efstur á blaði hjá tölvunni en í nútíma skák er það einmitt góð leið til að koma á óvart að velja góða eða solid leiki sem eru ekki endilega efsti á blaði hjá tölvunni. Því miður dugði sá undirbúningur skammt þar sem Laznicka lék án umhugsunar ...Bd6 sem er efsti leikur á blaði hjá tölvunni. Í stuttu máli fékk Hjörvar ekkert frumkvæði og Laznicka jafnaði taflið.

 

EM 2017_7nd_Hjorvar2

Skömmu síðar var komin staða með mistlitum biskupum og lítið að tefla upp á. Tilþrifalítil skák og staðan í viðureigninni því 0.5-0.5

 

1. borð Héðinn svart á Navara

 EM2017_7th_HHS

Í stuttu máli mætti kalla byrjunina og miðtaflið sem kom í kjölfarið nokkuð "órætt". Staðan er mjög óvenjuleg, hvítur með betri liðsskipan og frumkvæði en svartur á móti með biskupaparið og búinn að losna við h-peðs veikleikann en á móti með kónginn á miðborðinu og smá öruðgleika við að klára liðsskipan.

EM 2017_7nd_Hedinn1

Staðan hér að ofan strax óvenjuleg en hér lék Navara g5 en hefði mögulega fengið betra tafl með Rd6.

EM 2017_7nd_Hedinn2

Skömmu síðar var Navara eiginlega þvingaður til þess að fórna manni. Þegar kallar á þessum kalíber fórna svona heldur maður að það sé allt í springa í andlitið á manni. Héðinn var hinsvegar háll sem áll og svalur eins og valur og treysti sínu stöðumati og útreikningum. Hann hafði séð að hvítur varð að fórna hér og mat það rétt að hann stæði jafnvel betur.

EM 2017_7nd_Hedinn3

Fórnin var mjög athyglisverð og í stöðunni að ofan var mjög athyglisvert augnablik. Riddari til a5 virðist eðlilegasti leikurinn (rauð ör) en Héðinn lék Re5 (græna) sem er mun betri leikur. Hvítur hafði enga mátsókn og í kjölfarið kom tvöfalt hróksendatafl þar sem Héðinn var í raun með aðeins betra en náði ekki að sigla vinningi í höfn.

 

EM 2017_7nd_Hedinn4

Hefði svartur leikið ...Ra5 hefði komið mjög flottur varíantur með 28.e4 h3 (til að forðast mát) 29.Hgg6 Hh5 (annars Hh6+ og mát) og hér er virkilega smekklegt mát með 31.Hf4+ og svo Hg4 mát, virkilega smekklegt. Þetta höfðu báðir keppendur séð og hraðspóluðu yfir í stúderingum með bros á vör. Annars var gaman að fylgjast með stúderingum þeirra Héðins og Navara. Navara er eins og menn þekkja mjög kurteis og á köflum eiginlega of kurties því hann eiginlega biðst afsökunar ef hann stingur upp á leik í post-mortem sem er ekki besti leikurinn. Svo er gríðarlega fallegt að fylgjast með þegar hann drepur menn í skákinni. Hann passar að taka manninn rólega útaf borðinu og ýtir ekki á klukkuna fyrr en allt er komið á sinn stað. Það er engin truflun á andstæðinginn!

En já, skákin semsagt einfaldaðist í jafnt hróksendatafli og staðan því 1-1 í viðureigninni. Vel teflt hjá Héðni og gott jafntefli heilt yfir þó gaman hefði verið ef að Héðinn hefði fundið erfiðu leikina og unnið. 

 

3. borð Hannes svart á Hracek

EM2017_7th_Nesi

Hannes stýrði svörtu mönnunum gegn Hracek og átti nokkurn veginn von á að ítalski leikurinn kæmi upp enda verið hálfgerð "tískubyrjun" undanfarið af furðulega ástæðum. Í raun má segja að menn hafi verið þreyttir á að fá lítið sem ekkert frumkvæði í Berlínarvörninni og því eru menn sáttari við að fá "ekkert" í ítalska leiknum. Hannes hafði skoðað fyrir skákina ...a5 hugmynd til að hafa eitthvað fram að færa. Í stuttu máli virtist hvítur alltaf hafa aðeins betri stöðu en aldrei nógu mikið til að skapa einhver raunveruleg vandamál fyrir Hannes.

EM 2017_7nd_Hannes1

Þessi staða kom upp í miðtaflinu. Tölvan gefur þessu mjög lítinn plús á hvítann og e.t.v. lítur þetta verr út en þetta er. Svartur hefur þrjár peðaeyjur og virðist eiga nokkuð erfitt um vik. Peðið á e5 er stakt og hægt er að setja á það með Bc3. Peðið á c7 er bakstætt og hvítur er að ráðast á það á opinni línu. Hvítur getur sett riddara sinn á f5 og svartur þarf smá tíma til að stugga við honum. Ofan á þetta þarf svartur aðeins að hrókera sínum mönnum til þess að virkja hrókinn á a8. Heilt yfir hljómar þetta og lítur ansi illa út fyrir svartan en einhvern veginn náði hvítur ekki að búa neitt til. Smátt og smátt náði svartur að virkja biskupinn sinn og hrókinn og leika svo ...h5 og ...g6 og losa stöðuna. Skömmu síðar var jafntefli samið.

Enn eitt jafnteflið og staðan því 1.5-1.5 í viðureigninni og aðeins Gummi eftir (ekkert nýtt þar!)

 

4. borð Guðmundur hvítt á Plat

 EM2017_7th_GK

Gummi ákvað að beita Bb5 Rossolimo afbrigðinu og slá á c6. Plat er nokkuð vanur þessum afbrigðum og e.t.v. var það ekki vænleg leið að fara í afbrigði sem hann þekkir svona vel eftir á að hyggja. Kannski hefði verið skynsamara að fara í Rf3 eða c4 "juð" og tefla skákina. Athyglisvert er að Gummi mætti Plat líka á Ólympíumótinu í Baku en þar var Grunfeld á boðstólnum og Gummi fékk ágætis stöðu eftir byrjunina.

EM 2017_7nd_Gummi1

Í teórískri stöðu kom óalgengur Re2 leikur og svo g4 í kjölfarið. Eftir það kom furðuleg drottningartilfæring til a3 sem líklega gaf svörtum frumkvæðið. Hvítur tapaði miklum tíma á tilfærslunni Dd2-c3-a3-b3-c2. Svartur hafði öll vopn á hendi eftir það og hvítur fastur í erfiðri vörn. Til gamans má geta þess að drottning hvíts fór einnig til a3 í Grunfeld skákinni í Baku!!

EM 2017_7nd_Gummi2

Gummi var nokkuð seigur í vörninni og fórnaði peði og var að gera Plat lífið erfitt. Þegar hér var komið við sögu var ég farinn að eygja von að Gummi gæti barist en tölvan gefur næsta leik allt að falleinkunn. Gummi lék hér e5 sem opnaði of miklar flóðgáttir.

EM 2017_7nd_Gummi3

Í kjölfarið kom endatafl þar sem liðsafli var jafn en frípeðið á b3 líklega of mikið. Mín tilfinning er að svarta drottningin komist alltaf inn í hvítu stöðuna og líklegast lendir hvítur alltaf í leikþröng. Að öllum líkindum hefði mátt gera svörtum lífið erfiðara í framhaldinu en þess í stað komst svarta drottningin inn í hvítu stöðuna og kláraði dæmið.

Niðurstaðan því aftur 2.5-1.5 tap gegn aðeins sterkari sveit líkt og í 5. umferðinni. Nokkuð svekkjandi en kannski sanngjarnt. Í raun var 2-2 það mesta sem við hefðum getað fengið úr þessari viðureign eins og skákirnar þróuðust. Við þurfum því enn að lúta í gras fyrir Tékkum en við höfum tapað fyrir þeim í öll fimm skiptin sem við höfum mætt þeim á EM eða ÓL.

Á toppnum lögðu Azerar Ungverja að velli og greiddu því leiðina fyrir Rússa á toppinn. Rússarnir lögðu Króata og eru því einir efstir eftir sjö umferðir. Rússarnir hafa 12 stig og mæta Azerum á morgun en þeir eru með 11 stig og hafa unnið síðustu fjórar viðureignir sínar eftir erfiðara byrjun. Vert er að minnast á Rauf Mamedov á 4. borði en hann er með 6.5 vinning af 7 og er kominn yfir 2700 elóstigin í fyrsta skipti á sínum ferli. Ef Rússarnir leggja Azera á morgun má nánast afhenda þeim bikarinn og því væri skemmtilegt fyrir mótið ef Azerar ná að stríða þeim.

Endapsretturinn verður einnig mikilvægur fyrir okkur. Við losnum við jójóið og teflum ekki niður fyrir okkur heldur fáum Sviss sem eru númer 26 í stigaröðinni, einu sæti fyrir ofan okkur. Því er um að ræða algjörlega jafna viðureign og má segja að þessi viðureign og sú næsta skilgreini mótið okkar algjörlega. Ef við leggjum Sviss og náum góðum úrslitum í síðustu umferð má kalla mótið mjög gott en allt annað verður í besta falli viðunandi. 

 

Krítarkveðja frá liðsstjóra,

Ingvar Þór Jóhannesson

 

Snapchat story frá Ingvar77:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 87
  • Frá upphafi: 8778791

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband