Leita í fréttum mbl.is

EM ungmenna Rúmeníu 2017 - Pistill #1

Mamaia_BatelÞað voru ellefu manns sem lögðu í hann aðfararnótt mánudagsins 4. september. Framundan var langt og strangt ferðalag sem endaði á að taka hátt í sólarhring.

Flestir lögðu af stað um 4-leytið um nóttina og rúta tekin frá BSÍ klukkan 4:30. Flug í tveimur leggjum var næst á dagskrá en fyrst var flogið til Frankfurt í Þýskalandi. Það flug hófst ekki vel en einhver töf varð þar sem erfiðlega gekk að starta öðrum hreyflinum. Það gekk þó fagmennlega fyrir sig og eftir ekkert of langa töf vorum við komin í loftið.

Til allrar hamingju höfðum við náð að undirrita töskurnar alla leið og héldum því að við þyrftum ekki að fara út úr flugstöðinni til að checka okkur inn. Eftir mikið labb fram og til baka komumst við að því að við þurfum í raun að fara aftur út og það varð niðurstaðan. Í Frankfurt þurftum við að bíða um 5 tíma milli fluga. Í slíkri bið er lítið annað að gera en setjast niður og taka nokkrar hraðskákir. Ég skoraði á VVS í 100 skáka einvígi í ferðinni en það er ekki útséð að við höfum tíma í það :-)   Við fórum þó af stað og VVS tók forystu í Frankfurt og leiddi en leikar voru jafnir 2,5-2,5 þegar haldið var á brott frá Frankfurt.

Eftir flugvallarverð á ýmsum matarkyns vörum til einkaneyslu var loks haldið í flugið með TAROM hinu rúmenska flugfélagi. Hópurinn var orðinn vel þreyttur enda langt ferðalag að baki en þegar til Búkarest var komið þurftum við að bíða allavega klukkutíma í viðbót eftir rútuferð. Þá var lítið annað í boði en að halda áfram með hraðskákeinvígið. X-bitinn (gælunafn undirritaðs, of langt að útskýra) tók þá forystu gegn VVS-vélinni (Vignir Vatnar) og tók "killing spree" og komst í 5,5-2,5 með tilheyrandi orðaflaumi um að sá litli ætti ýmislegt eftir ólært. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við Vignir tökum hraðskákir en ég er mikið fyrir svona skemmtilegt "trashtalk" til að herða strákinn. Svipuð "kennslutækni" var notuð á Hjörvar á sínu tíma:

Við vitum öll hvernig það fór og í dag er Hjörvar stórmeistari! Ég hef séð mikla bætingu hjá Vigni í hraðskákinni og hann er kominn úr því að vera skyldupunktur í það að standa í mér og yfir í það að í dag er þetta alveg að vera 50-50 keppni okkar á milli. Best að njóta þess meðan maður hefur hann undir, svona svipað og með Hjörvar!

Vignir sýndi líka úr hveru hann er gerður og svaraði þessari skorpu minni með því að taka 3 í röð (ég fékk alveg að heyra það að ég væri gamall og seinn þar!) og leikar stóðu 5,5-5,5 en þá var ég greinilega búinn að þreyta pjakkinn og náði góðum endaspretti. Leikar standa 7,5-5,5 og sjáum við til hvort það verði framhaldssaga úr þessu einvígi :-)

En já....um síðir komumst við loks í rútu ásamt liðinu frá Eistlandi. Framundan var enn eitt ferðalagið og nú var það allavega tveggja og hálfs tíma keyrslu til Mamaia. Þegar hér var komið við sögu voru flestir orðnir löðrandi úr þreytu og ekki bætti úr skák að vegirnir í Rúmeníu eru ekki upp á marga fiska, mikill hristingur og mikið af svona litlum leiðinlegum hraðahindrunum. Undirritaður var auk þess að glíma við hálsbólgu sem hefur verið þrálát undanfarna viku og versnaði líklega aðeins á öllu ferðalaginu.

Við vorum því gríðarlega feginn þegar loks var komið á hótelið en þa var klukkan vel genginn í 3 um nótt að staðartíma (tímamismunur er 3 tímar). Hótelið okkar heitir Hotel Perla en er því miður eins langt frá því að vera réttnefni og hægt er. Þetta er greinilega gamalt kommúnista hótel og mikið af innréttingum eftir því. Klósett t.d. greinilega frá 70-ogeitthvað í besta falli. Eitthvað af herbergjunum eru greinilega skárri en önnur en nokkrir fengu því miður ansi slæm herbergi en búið er að greiða úr því þegar þessi orð eru rituð. Sem betur fer er staðsetningin nokkuð góð. Stutt er á skákstað og fyrir utan hótel eru veitingarstaðir, kebab og sjoppur. Stutt er síðan á ströndina og í mannlíf og annað. Heilt yfir alveg ágætis staður og margt sem hægt er að gera hér.

 

1. umferð - Batel stjarnan!

 

Fyrsta umferðin fór þokkalega af stað. Flestir tefldu upp fyrir sig nema Vignir sem fékk stigalægri andstæðing.

U8

20170905_145809

Bjartur fékk hvítt á andstæðinga með 1169 stig. Smá stress í byrjun varð til þess að hann gleymdi sér í byrjuninni og tapaði peði. Hann lét það hinsvegar ekkert á sig fá og tefldi vel í framhaldinu og vann sig inn í skákina. Jafnt var orðið á liði og Bjartur kominn með betra tafl þegar hann varð of upptekinn af tilvonandi eigin peðsvinningi að hann gleymdi hótunm andstæðings síns og lenti í lúmskri leppun sem kostaði skákina. Bjartur fær yfirsetu í 2. umferð og kemur vafalítið sterkur inn í næstu umferðir.

 

U10

20170905_145346

Gunnar Erik hafði hvítt á ungverskan andstæðing með 1710 stig. Drottningarpeði var leikið og upp kom Nimzo-indversk vörn. Upp kom lærdómsríkt augnablik þar sem Gunnar hefði líklega best lokað stöðunni með d5 framrás en þess í stað lenti hann í taktík á e4 reitnum þar sem peð féll í valinn (hvítur átti eftir að hróka og leppun á e-línunni yfirvofandi). Gunnar hélt þó áfram að berjast og andstæðingurinn þurfti að hafa mikið fyrir sigrinum en tefldi mjög vel og hafði sigurinn að lokum. Gunnar er mjög yfirvegaður og á eftir að gera góða hluti á motinu.

 

U10 - stelpur

20170905_150015

Batel er í U10 flokki stelpna og fékk mjög erfiða pörun, 3ju stigahæstu stelpuna í flokknum frá Rússlandi! Mikheeva þessi var nýkomin frá Heimsmeistaramóti ungmenna og því komin með reynslu og WCM titil!

Batel var alveg sama um allt slíkt og tefli algjörlega eins og herforingi. Snemma gaf andstæðingur hennar peð sem Batel þáði með þökkum. Því næst var blásið til bullandi sóknar og allt gert eftir forskrift sterks skákmanns.

Mamaia_1_Batel_1

Hér kom leikur umferðarinnar. Batel lék hinum frábæra ...Bxa2!! Sú rússneska þorði ekki að taka þetta og lék Kc1. Ef hvitur tekur með Kxa2 kemur ...Hxc2 og vinnur manninn til baka á d2 ef hrókur valdar en ef hvítur leikur Da3 kemur ...d5! og hvítur er með gjörtapað. Magnaður leikur hjá Batel og hún sýndi jafnfram mikla yfirvegun í framhaldinu og lék fullt af "cool" leikjum.  Sérstaklega hafði ég gaman af yfirveguninni í að leika Hb3+ áður en tekið var á a3. Gegnumbrotið með ...a3 var líka mjög flott...heilt yfir frábær skák hjá Batel sem stimplar sig heldur betur inn á þetta mót!

Batel var í beinni útsendingu í fyrstu umferð en er á 12. borði í annarri umferð en aðeins 10 efstu eru sýndar beint.

 

U14

20170905_145718

Vignir fékk búlgarskan andstæðing með 1967 stig og hafði allan tíman fulla stjórn á stöðunni og betra tafl. Sá búlgarski var þó fyrir í langan tíma og það var aðeins í lokin sem hann gaf eftir og leyfði Vigni að vera "taktískur í dag" og fórna á hann skiptamun og brjótast í gegn. Flott byrjun hjá Vigni sem er á sýningarborði í 2. umferð.

 

U18

20170905_150330

Þeir félagar frá Akureyri Símon og Jón Kristinn tefldu í fyrstu umferðinni gegn erfiðum andstæðingi. Símon fékk hvítt á Þjóðverja með 2357 stig. Semi-Slavi var á borðinu og líklegast misheppnaðist lok byrjunarfasana lítið eitt hjá Símoni sem varð að fórna peði og næsti hluti skákarinnar fór í að reyna að á nægjanlegt spil fyrir peðið. Símon setti smá pressu á andstæðing sinn að finna vörn og átti ýmis trikk í pokahorninu. Sá þýski var hinsvegar vandanum vaxinn, varðist öllu og stýrði svo liðsaflanum til vinnings.

20170905_150246

Jón Kristinn hafði svart á hollenskan FM með 2399 stig. Jón fékk snemma mjög þægilega stöðu með ekkert til að hafa áhyggjur af. Vafalítið stóð hann aðeins betur en erfitt var að gera eitthvað úr þeim yfirburðum. Jokkó tefldi þó til vinnings og var eins og vantaði herslumuninn að hann næði að brjóta andstæðing sinn niður. EFtir góða vörn var sá hollenski svo allt í einu við það að snúa taflinu en þá lenti Jokkó nokkuð öruggri þráskák og gott jafntefli í höfn.

Þeir tefla báðir upp fyrir sig í 2. umferð.

 

Mamaia_rnd1_results

Skákir 1. umferðar eru hér fyrir neðan. Á heimasíðu mótsins vantaði skákir Gunnars Erik og Vignis.

 

Bestu kveðjur frá ströndinni á Mamaia,

Ingvar Þór Jóhannesson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.7.): 3
  • Sl. sólarhring: 21
  • Sl. viku: 148
  • Frá upphafi: 8778636

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 86
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband