Leita í fréttum mbl.is

Pistill: Þjáningar Þorfinnsbræðra í Þelamörk

18685672_10212221747154492_1448639347_n

 

Á dögunum héldum við bræður í víking til smábæjarins Kragerø í Þelamörk í Noregi.  Þar tókum við þátt í alþjóðlegu skákmóti sem skákfrumkvöðullinn Truls Jörgensen stóð fyrir. Truls er framkvæmdastjóri í öflugu fyrirtæki þar í bæ en er einnig ástríðufullur skákáhugamaður.  Hann heldur úti viðamiklu unglingastarfi á svæðinu og það mátti glöggt sjá á þátttakendalista mótsins þar sem ungir skákmenn voru áberandi. Mótinu var að sjálfsögðu skipt í A, B og C-flokk enda Truls víðsýnn og skynsamur maður í alla staði. [Aths. ritstj. Bjössi stríðinn]

Ferðin kom upp með skömmum fyrirvara hjá okkur bræðrum. Ástæðuna má helst rekja til þess að undirritaður var pirraður eftir sveiflukennt gengi í tveimur innlendum mótum í byrjun árs og vildi ólmur freista þess að hamra járnið á meðan það var heitt. Bragi hafði aftur á móti lítið teflt í nokkra mánuði og það var ekki ákjósanlegt því framundan var seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga þar sem hann var í dauðafæri til þess að landa stórmeistaraáfanga eftir einstaklega gott gengi í fyrri hluta mótsins. Ferðin til Noregs var því hugsuð sem einskonar upphitun fyrir Íslandsmót skákfélaga.

Mótsstaður var Kragerø Resort sem er í alla staði glæsilegt hótel. Umhverfið er einstaklega fallegt og má segja að um einskonar heilsuhótel sé að ræða því  að fjölmargir valkostir eru í boði á staðnum varðandi hreyfingu, meðal annars glæsilegur 18 holu golfvöllur.  Lítill tími gafst til þess að njóta þess ef undan er skilin stórkostleg spa-aðstaða hótelsins sem var mikið notuð af okkur bræðrum. Þar var hægt að slaka á eftir erfiðan dag í sundlaug sem var með útsýni yfir stórbrotinn fjörð.

Mótið sjálft var með túrbó-sniði, níu umferðir á fimm dögum. Það er kannski ekki eftirsóknaverðasta fyrirkomulagið á alþjóðlegum skákmótum en hentaði okkur bræðrum afar vel í þetta sinn. Fimm stórmeistarar voru skráðir til leiks í mótinu og voru það góðkunningjar okkar Rozentalis og Kveinys frá Litháen, Miezis frá Lettlandi, Catalbashev frá Búlgaríu og Lie frá Noregi.  Að auki tóku þátt fimm alþjóðlegir meistarar en keppendur í A-flokki voru 26 talsins.

Við flugum út að morgni miðvikudags og vorum lentir um hádegisbilið. Fyrsta umferð átti að hefjast kl.19.00 og ráðgert var að rútuferðin á mótsstað myndi taka rúmlega þrjár klukkustundir. Það var öðru nær og þökk sé stórkostlegri umferðateppu út úr Osló þá vorum við rúmlega sex klukkustundir á leiðinni. Vorum við bræður nokkuð framlágir eftir þetta en fengum smá tíma til þess að úða í okkur kvöldverði og svo var hafist handa. Blessunarlega voru andstæðingarnir ekki mikil fyrirstaða í fyrstu umferð og því hófum við báðir mótið með sigri. Við vorum afar fegnir að komast klakklaust frá þessu ævintýri og vorum hvíldinni fegnir.

Næsti dagur var tekin snemma. Glæsilegt morgunverðarhlaðborð beið okkar og Norðmennirnir mega eiga það til hrós að boðið var upp á úrvals kaffi og te í hverri umferð. Það er ekki alltaf svo í skákmótum og vorum með bræður afar kátir með það enda miklir kaffiunnendur.  Andstæðingarnir í 2.umferð voru stórneistarnir Kveinys (Björn) og Catalbashev (Bragi).

Mér hefur gengið bölvanlega með Kveinys og var 3-0 undir þegar að þessari skák kom. Það skýrði mögulega linkulega og áhættufælna taflmennsku sem að endaði með leiðindajafntefli.  Skák Braga var öllu fjörugri en þó fékk hvorugur keppandinn tækifæri til þess að snúa henni sér í vil. Að lokum leystist staðan upp í jafntefli. 

Í seinni umferð dagsins tefldi ég við norska alþjóðlega meistarann Kristian Stuvik Holm sem er alræmdur hérlendis eftir að gerst sekur um svindl á Alþjóðlega Reykjavíkurskákmótinu fyrir nokkrum árum. Kristian var þá barnungur en höfuðpaurinn var Ragnar, faðir hans, sem fékk að sjálfsögðu bann við frekari heimsóknum á mótið. Þeir feðgar mættu saman á mótið í Kragerø og verð ég að viðurkenna að það var afar óþægilegt þegar Kristian var að drita út öflugum leikjum og labba fram á gang þar sem að faðir hans var að leika sér í snjallsímanum sínum! Sem betur fer fann ég lausnir á vandamálunum yfir borðinu og skákin leystist upp í jafntefli. Kristian  útskýrði þá fyrir mér að hann hefði verið með nákvæmlega sömu stöðu gegn Piu Cramling nýlega og var því öllum hnútum kunnugur . Ég var því í raun bara dauðfeginn að hafa sloppið með jafntefli.

Bragi var afar ófarsæll gegn Kveinys og tapaði illa. Hann tefldi byrjun sem Kveinys hafði stúderað vel með íranska kvennalandsliðinu nokkrum vikum fyrr og var því öllum hnútum kunnugur. Á meðan þekkti Bragi fínni blæbrigðri stöðunnar illa og fékk þungan skell. Vinur okkar Kveinys nánast skríkti af gleði eftir skákina yfir því að heilladísirnar hafi verið á hans bandi. Ekki annað hægt en að þykja vænt um þennan kall!

Í fjórðu umferð tefldum við bræður við mun stigalægri andstæðinga. Ég tefldi við ungan dreng sem hafði nýverið teflt á Norðurlandamóti ungmenna, Mads Vestby-Ellingsen að nafni. Í græðgi minni hirti ég peð snemma tafls og líklega hefði drengurinn getað refsað mér fyrir það. Hann fann hinsvegar ekki bestu leiðina og ég sveið endataflið af öryggi. Bragi bróðir mætti heldri skákmanni að nafni Oddvar Ull og verður honum tileinkaður sérstakur kafli.

Oddvars saga  Ull

Áður en við bræður héldum af stað til Þelamerkur leit allt út fyrir að ég myndi tefla við Oddvar í fyrsta umferð en hann var skráður með 1988 FIDE-stig. Ég hafði því aðeins rannsakað hugsanlegan andstæðing og meðal annars flett honum upp á Facebook. Þar blasti við mér langur pistill eftir Oddvar þar sem að lýsir andlegum veikindum og meðal annars tilraunum til sjálfvígs.  Varð ég nokkuð tómur við lesturinn en þessi vitneskja gerði það að verkum að ég fylgdist vel með framgöngu Oddvars í mótinu.

Talsverðar breytingar urðu á keppendalistanum rétt fyrir fyrstu umferð og svo fór að Oddvar tefldi við ungstirnið Tor Fredrik Kaasen. Sá ágæti drengur hafði á skömmum tíma rokið upp FIDE-stigalistann og státaði nú af 2468 stigum. Oddvar mætti ferskur í fyrstu umferð, greinilega spenntur fyrir viðureigninni og tefldi byrjunina af krafti með svörtu mönnunum.

Eftir 13.leik hvíts var staðan svona:

Clipboard02


Oddvar var einfaldlega að tefla skák lífs síns og allir sem voru á mótsstað hópuðust að borðinu. Það fór greinilega ekkert sérstaklega vel í okkar mann því augljóst var að hann var nokkuð stressaður. Í ofangreindri stöðu er hvítur einfaldlega óverjandi mát þó að það sé alls ekki augljóst. Fallegasta lausnin felst í 13. – Bd6+ 14.Kg4 Bf5+! 15. Kxf5 Dh4! 16. g4 He8 og mátið blasir við. Ég var nokkuð spenntur fyrir hönd Oddvars þegar hann lék 13. – Bd6+ eftir langa umhugsun.  Eftir hinn þvingaða leik 14. Kxg4 lék Ull hinsvegar 14. – Dd7+ sem er að mörgu leyti skiljanlegur leikur. Framhaldið varð 15. Kh4 g5+ 16. Dxg5 Be7 og hvíta drottningin fellur.  Svartur er að sjálfsögðu með gjörunnið tafl en smátt og smátt fór Oddvar að leika skákinni niður. Að lokum tókst honum að tapa skákinni á ótrúlegan hátt.

Það var ekki laust við að allir keppendur hafi vorkennt Oddvari eftir þessa niðurstöðu. Daginn eftir mætti hann frekar þreytulegur í morgunumferðina og vann sigur á stigalægsta manni mótsins. Mátti greina ljúfan angann af ótilgreindum kaupstað í loftinu. Í seinni umferð dagsins var okkar maður orðinn frekar þreytulegur en það stöðvaði hann ekki í því að tefla af krafti gegn nýkrýndum Norðurlandameistara Andreas  G. Tryggestad, 2316.  Óhætt er að segja að báðir keppendur hafi teflt frekar illa. Að lokum plataði Ull hinn unga andstæðing sinn upp úr skónum og eftirfarandi staða leit dagsins ljós.

Clipboard03 

Oddvar var með hvítt og átti leik. Hann er að sjálfsögðu með gjörunnið tafl en greinilegt er að hann hefur óttast framrás f-peðs svarts. Hann lék því hinum fyrirbyggjandi og ígulmenntaða leik 59. Bd4. Það væri frábær leikur í alla staði ef að svartur ætti ekki hinn óþægilega svarleik 59. – Dc1 skák og mát.

Síðar um kvöldið gekk undirritaður framhjá hótelbarnum á leiðinni í háttinn. Þar var einungis einn viðskiptavinur eftir, Oddvar Ull. Hann sat með drykk og horfði út í tómið. Í þessari stund fólst harmræn fegurð.

Andstæðingur Oddvars í fjórðu umferð var síðan enginn annar en Bragi bróðir. Við bræður höfðum skellt okkur í sund snemma morguns til þess að öðlast nauðsynlegan ferskleika fyrir strembinn dag. Það hafði Oddvar Ulll ekki gert. Hann var úfinn og þreytulegur í meira lagi. Hann tefldi þó vel gegn Braga og þrátt fyrir að vera peði undir þá var ekki augljóst hvernig Bragi ætlaði að fara að því að vinna skákina. Skelfilegur afleikur gerði þó að lokum út um skákina.

Eftir þessa skelli var Oddvar brotinn á bak aftur. Taflmennskan fór versnandi og aðeins kom eitt jafntefli í hús það sem eftir var móts. Hann endaði í deildu neðsta sæti í móti þar sem glæstir sigrar voru innan seilingar.

Í fimmtu umferð tefldi ég við alþjóðlega meistarann Espen Lie. Ég var með hvítt og beitti svonefndu London-kerfi sem er afar traust og einfalt. Ég ákvað að skipta upp í hundleiðinlegt endatafl eins og Kamsky hefur stundum gert í sömu stöðu en skyndilega fékk ég þá herfilegu hugmynd að sleppa drottningaruppskiptum. Afleiðingarnar voru þær að ég tapaði peði en öllu verri fréttir voru þær að mótspilið var minna en ekki neitt. Í örvæntingafullri leit minni að moldviðri framdi ég síðan virðulegt harikiri á borðinu, gafst upp, strunsaði niður í heilsulindina og refsaði sjálfum mér með ítrekuðum heimsóknum í kalda pottinn með tilheyrandi skrækjum. Eftir svona frammistöðu eiga menn ekkert gott skilið.

Frammistaða Braga var öllu betri. Hann vann góðan sigur með svörtu gegn alþjóðlega meistaranum Petter Haugli og var hinn kátasti þegar bugaður bróðir hans kom úr heilsulindinni.  Héldum við bræður þá í matsal hótelsins sem var glæsilegur í alla staði. Útsýni til allra átta og hlaðborðið sem boðið var uppá öll kvöld var frábært. Þá léttist lund okkar nokkuð þegar íslensk stúlka, sem búið hafði í Kragerø í rúman áratug, heilsaði upp á okkur. Hún hafði um nokkurt skeið unnið á hótelinu og var mætt á sína fyrstu vakt eftir að við bræðurnir mættum á staðinn.

Sjötta umferð hófst eldsnemma daginn eftir og framundan voru óþægilegir andstæðingar. Bragi fékk hvítt á ungstirnið Kaasen (2468) sem hafði farið mikinn í mótinu eftir heppnina gegn Oddvari í fyrstu umferð. Ég tefldi við með svörtu gegn nýkrýndum Norðurlandameistara, Andreas G. Tryggestad (2316). 

Hjá mér kom upp uppskipta afbrigði spænska leiksins og fórnaði ég peði á velþekktan hátt. Ég gaf færi á mér snemma tafls með yfirborðskenndri og vanhugsaðri hugmynd en hinn ungi mótherji minn treysti mér um of og greip ekki gæsina. Eftir það átti hann ekki möguleika og ég valtaði samviskusamlega yfir pjakkinn. Skák Braga var öllu flóknari og skipti nokkrum sinnum um eigendur. Bragi yfirspilaði Kaasen í byrjun tafls en síðan missti hann marks og endaði í nauðvörn. Sem betur fer hafði litli bróðir það af en síðan kom upp æsilegt tímahrak. Sem betur fer tefldi Bragi seinni hluta skákarinnar allt að því óaðfinnanlega og hafði afar mikilvægan sigur.  Voru Þorfinnsbræður vígreifir eftir þessa niðurstöðu. Hádegishléið var nýtt í velútlátinn hádegisverð, hressandi göngutúr og afar mikilvægan blund!

Síðar sama dag fór fram sjöunda umferð og vorum við bræður komnir í bullandi toppbaráttu. Bragi tefldi á fyrsta borði gegn stórmeistaranum Kjetill A. Lie og ég mætti goðsögninni Eduardas Rozentalis. Bragi tefldi nokkuð góða skák gegn Lie þar sem að þræðir valdsins voru alltaf í hendi litla bróður. Staðan batnaði jafnt og þétt hjá okkar manni og mátti Lie teljast heppinn að sleppa út í endatafl peði undir. Þar náði hann hinsvegar góðri blokkeringu með riddaranum sínum og jafnteflið varð ekki umflúið. Með örlítið meiri nákvæmni hefði Bragi vel getað unnið þessa skák.

Ég tefldi langa og flókna skák gegn Rozentalis. Ég var kominn með yfirburðatafl eftir byrjunina en þá réðst stórmeistarinn öflugi til atlögu svo um munar og fórnaði liði fyrir ógnvekjandi sókn. Var ég afar stressaður um að ég myndi enda sem fórnarlamb í einhverju ódauðlegu listaverki á hinum 64 reitum en það eru skelfileg örlög í alla staði. Sem betur fer fann ég hinsvegar ágæta varnarleiki og slapp síðan frá öllu saman með betra tafl. Rozentalis ætlaði hinsvegar ekki að tapa án baráttu og hann varðist af miklum krafti lengi vel. Í tímahraki lék hann hinsvegar af sér peði á afar klaufalegan hátt sem endaði með því að ég komst út í endatafl manni yfir. Slæmu fréttirnar voru hinsvegar þær að ég gat í raun ekki komið í veg fyrir að ég myndi missa öll mín peð og þyrfti þá að máta stórmeistarann með riddara og biskup.  Þetta var í fyrsta skipti á ferlinum, jafnvel í hraðskákum, sem að þetta endatafl kom upp hjá mér og var ég því nokkuð smeykur. Sem betur fer þá náði ég að muna aðferðina og Rozentalis gafst upp eftir 120.leiki.

Ef að við vorum montnir eftir fyrri umferð dagsins þá héldu okkur engin bönd eftir þessa umferð. Vorum við bræður í öðru sæti mótsins fyrir tvær síðustu umferðirnar með fimm vinninga. Efstur var Kjetill A. Lie með 5½. Héldum við í koju sannfærðir um að miklir sigrar væru yfirvofandi síðasta daginn. Það varð ekki raunin.

Lie-bræður voru andstæðingar okkar í 8.umferð. Ég tefldi við efsta manninn, Kjetil og Bragi tefldi við bróður hans Espen sem einnig státaði af fimm vinningum. Hann hafði teflt við aðeins sterkari andstæðinga en við bræður og var því hársbreidd frá sínum síðasta stórmeistaraáfanga. Til þess þurfti hann 1½ vinning í síðustu tveimur umferðunum.

18741573_10212221735314196_1019817430_n

Skemmst er frá því að segja að Bragi hélt uppteknum hætti varðandi gjafmildi okkar bræðra gagnvart Espen. Skákin var arfaslök í alla staði og Espen vann öruggan sigur og stórmeistaraáfangi hans því nánast gulltryggður.

Skák mín gegn Kjetil var talsvert meira spennandi.  Kjetil tefldi enska leikinn og ég svaraði því með kraftmikilli taflmennsku. Ég afréð að fórna peði fyrir talsverðar flækjur og mat tölvan stöðuna þannig að ég væri með úrvalsbætur. Staðan var þó vantefld og öllu verra var að ég kom mér í tímahrak sem að gerist sjaldan. Eftir smá ónákvæmi fórnaði Kjetil síðan skiptamuni og komst út í afar vænlegt endatafl. Mín tilfinning var sú að ég hefði átt að geta haldið jafnteflinu en með engan tíma á klukkunni var það nánast ógjörningur. Lie-bræður rassskelltu því Þorfinnsbræður 2-0.

Það voru þung skref í hádegisverðinn þennan síðasta dag.  Allir draumar að engu orðnir. Ekki léttist lund okkar þegar að pörun síðustu umferðar leit dagsins ljós en þar blasti við viðureignin Þorfinnsson – Þorfinnsson.  Þetta var stutt skák, án sviptinga, sem endaði með skiptum hlut.

Lokaniðurstaða mótsins var sú að stórmeistarinn Kjetill A. Lie vann glæsilegan sigur og hlaut 7 vinninga af 9 mögulegum.  Ekki síður var árangur bróður hans, Espen, glæsilegur en hann náði sínum síðasta stórmeistaraáfanga með því að hljóta 6,5 vinninga  af 9 og fór taplaus í gegnum mótið. Hann þarf núna aðeins stigin til þess að ná titlinum eftirsótta og með taflmennsku eins og hann sýndi í Kragerø mun það gerast innan tíðar. Í 3-4.sæti voru síðan stórmeistararnir Kveinys og Catalbashev með 6 vinninga. Kveinys vann hinn unga Kaasen í 15.leikjum með hvítu í síðustu umferð og var svo kátur eftir mótið að annað eins hefur vart sést.

Við bræður deildum 5-8.sæti ásamt Tryggestad og Miezis. Veitt voru peningaverðlaun fyrir sjö efstu sætin og var notast við athyglisvert kerfi. Í stað þess að deila þremur verðlaunum með okkur fjórmenningunum þá var sá stigalægsti skilinn út undan. Það kom í hlut stórmeistarans Miezis sem hafði átt arfaslakt mót en unnið sig upp í lokin. Fengum við bræður um 25 þúsund krónur á kjaft sem að er vissulega betra en ekki neitt! Við vorum þó frekar ósáttir með lokaniðurstöðuna og töldum að með smá stríðsgæfu þá hefði árangurinn getað orðið betri.  Ég græddi sjö stig í mótinu en Bragi heltraust 1 stig! Nokkrum dögum síðar landaði Bragi stórmeistaraáfanga í Íslandsmóti skákfélaga í Rimaskóla og því má segja að heimsóknin til Noregs hafi skilað sínu.

18716835_10212221766194968_630204986_n

 

 

Mótshaldarinn Truls Jörgensen er staðráðinn í að halda annað sambærilegt mót næsta ár. Það er mín skoðun að íslenskir skákmenn ættu að að íhuga það alvarlega að kíkja í heimsókn. Hótelið er fyrsta flokks, maturinn frábær og öll skipulagning mótsins til fyrirmyndar. Sérstaklega hefðu ungir skákmenn á bilinu 1600-1800 gott af því að mæta til leiks og spreyta sig í B-flokki mótsins. Þar voru góð tækifæri til þess að moka inn skákstigum og öðlast keppnisreynslu og sjálfstraust á erlendri grundu.

Björn Þorfinnsson með aðstoð Braga Þorfinnssonar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 29
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 188
  • Frá upphafi: 8772785

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 124
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband