Leita í fréttum mbl.is

Ólympíumót: 6. umferð í opnum flokki

P1040648

Eftir stórgóða byrjun á mótinu þar sem hver sigurinn á fætur öðrum hefur unnist var komið að erfiðu liði Tyrkja. Tyrkir eru númer 19 í stigaröðinni en eina tap okkur í mótinu kom einmitt á móti liði á svipuðu róli eða Tékkum númer 17 í röðinni.

Tyrkirnir eru okkur að góðu kunnir enda höfum við mætt þeim á tveim síðustu stórmótum. Við urðum að lúta í gras á EM 2015 en gerðum jafntefli við þá á ÓL í Tromsö árið 2014. Við þekkjum því Tyrkina mjög vel og Ipatov reyndar okkur að góðu kunnur einnig enda teflt á Íslandi og margir í liðinu sem þekkja hann vel enda vinsamlegur fýr. Í Tromsö spiluðum við einmitt oft fótbolta með honum en Ipatov er mikill aðdáandi Barcelona liðsins. Þess má geta að Barcelona hafa farið vel af stað í spænska boltanum með tvo sigra í tveim leikjum með markatöluna 7-2. ManuteBolEr líka svo að Barcelona skarta fremsta knattspyrnumanni heims að margra mati, Lionel Messi frá Argentínu. Í framhaldi af því er gaman að segja frá þvi að Sandor Mareco frá Argentínu átti einmitt glæsilega fléttu gegn Wang Yue frá Kína. Wang Yue er sterkur skákmaður en þó ekki skildur Yao Ming á nokkurn hátt en hann er fremsti körfuknattleiksmaður Kínverja frá upphafi og einn af stærstu leikmönnum í sögu NBA deildarinnar. Einn stærsti leikmaður í sögu NBA deildarinnar var einmitt Manute Bol en hann er einn af tveimur NBA leikmönnum frá Súdan sem hafa spilað í NBA deildinni. Hinn er Luol Deng. Ég er að segja frá þessu því 1. borðs maður Suður-Súdan, Cepriano Rehan Deng er einmitt ekki skyldur Luol Deng. Suður-Súdan menn hafa samt slegið í gegn hér með þrjá stigalausa menn en hafa staðið sig frábærlega og meðal annars er þriðja borð þeirra með rating performance vel yfir 2100 og stefnir í flott byrjunarstig. Skák er merkilegt nokk vinsælasta sportið í Súdan en körfubolti er aðeins númer tvö þrátt fyrir almennt góða meðalhæð í landinu. Þegar við spurðum Deng hvar þeir tefldu helst í Súdan í klúbbum eða einhverju slíku var svarið einfalt...."We just play under the trees man!"... en jáhhh....aftur að umferðinni....

Að þessu sinni vorum við mættir upp á stóra sviðið. Ekki bara í líkindamáli heldur í orðsins fyllstu merkingu þar sem 10 efstu sveitirnar í opnum flokki og kvennaflokki tefla á upphækkuðu sviði sem brakar nokkuð vel í. Ég hafði á orði að við værum komnir á Saga Class og hér vildum við vera enda aðbúnaður betri þar sem keppendur hafa hálfgerð skrifborð með hólfum og allt mun vandaðra. Jóhann reyndar leiðrétti mig og benti á að þetta væri meira Economy Comfort en við værum að nálgast Saga Class!

Rétt fyrir neðan sviðið fundum við svo frændur okkar Norðmenn sem hafa átt mót vel undir væntingum. Nægir þar að nefna stórvin okkar Jón Lúðvík kenndan við Hamar en hann hefur gert jafntefli í öllum sínum skákum þrátt fyrir að tefla 150-300 stigum niður fyrir sig í hverri einustu skák. Engu að síður var öll athyglin á viðureign Norðmanna í upphafi umferðar en þar mætti forsetafrúin ungrú Haliev til að leika fyrsta leikinn fyrir Magnus Carlsen.

Rd6_carlsen2

Ungfrú Haliev er hér að leika fyrsta leiknum fyrir Carlsen og virðist ætla að krefjast þess að hann api eftir 2. umferðinni þar sem Carlsen lék einmitt 1.e3 í fyrsta leik. Úr varð þó að peðinu var ýtt einum reit lengra.

Töfrar hennar dugðu þo skammt þar sem jafntefli varð niðurstaðan á öllum borðum gegn stigalægri sveit Filipseyja. Carlsen beitti uppskiptaafbrigðinu í franskri vörn en það hefur sjaldan verið talið líklegt til afreka og breytti Carlsen ekki ímynd þessa saklausa afbrigðis.

En færum okkur yfir í okkar menn:

1. borð Hannes hvítt á Dragan Solak

Hannes hafði sigur á Solak á ÓL í Tromsö árið 2014 sem var lykillinn að góðum úrslitum þar. Þá hafði Hannes líka hvítt. Skiljanlega splæsti Hannes því í 1.d4 í umferð dagsins. Snemma stefndi í rólegt tafl þar sem Hannes myndi njóta þess að eiga biskupaparið en svartur trausta stöðu.

Rd6_team

Skjótt skipaðist hinsvegar veður í lofti og eftir að Dragan Solak drap með riddara á g4 lék Hannes ekki besta leiknum og lenti í algjörri beyglu. Hannes missti af 14...Df6 (bjóst við 14...Dh4 þegar 15.hxg4 er óljóst) og þvi miður var á ferðinni allt annað en léleg valdaránstilraun hjá Tyrkjanum.

Rd6_hannes_solak

Hér var Hannes í vondum málum eftir ...Df6!

Í stuttu máli reyndist erfitt að kæfa þessa valdaránstilraun niður þar sem Solak var í raun með hartnær kolunnið tafl eftir mistök Hannesar. Sem betur fer spýtti Hannes í lófana og eftir nokkra góða kaffibolla frá liðsstjóranum var Hannes einhvern veginn búinn að mjaka sér inn í skákina og eftir Bd2 var Hannes "back in the game" eins og maður segir og ÞÞ var sammála:

Rd6_tt_comment

Þröstur reyndist þarna hafa rétt fyrir sér enda reyndur og góður Ólympíuliðsmaður. Skömmu síðar sá Solak engan annan kost en að taka þráskák. Sannkallað baráttujafntefli hjá Hannesi og gríðarlega mikilvægt fyrir liðið þar sem það leit á tímabili út fyrir tap með hvítu mönnunum. Þetta var fyrsta skákin til að klárast og gaf mönnum baráttuþrek á hinum borðunum.

 

2. borð: Hjörvar svart á Ipatov

Rd6_hsg_ipatov

Ipatov kom Hjörvari eilítið á óvart en Hjörvar hafði að mestu eytt undirbúningi í Catalan. Miðað við meðferðina sem Eistinn fékk í umferðinni á undan er kannski skiljanlegt að Ipatov hafði ákveðið að feta aðra braut. Niðurstaðan varð drottningarindversk vörn þar sem Ipatov valdi nokkuð saklaust afbrigði sem þó gaf honum aðeins betri stöðu. Á borðinu var hálfgert Noteboom afbrigði með skiptum litum ef svartur hefði drepið á b5 og leyft cxb5. Sú útgáfa hefði þó verið betri á hvítan en venjulegt Noteboom afbrigði.

Þrátt fyrir smá "tölvu-frumkvæði" hjá Ipatov virtist Hjörvar alltaf hafa fullt control á stöðunni og jafnaði taflið og var í raun stutt frá því að fá vinningssénsa sjálfur þegar Ipatov gaf peð. Íslandsvinurinn hafði þo nægar bætur að þvi er virðist og líklegast aldrei í neinni hættu þó Hjörvar hafi verið kominn með "betra í blöðunum" undir lokin.

Rd6_hjorvar_ipatov

Þessi staða er seint í taflinu. Hjörvar er peði yfir en virkni manna, peðastaða og biksupaparið tryggja Ipatov nægar bætur til að vera ekki í mikilli taphættu hér.

Jafntefli niðurstaðan og þessi skák kláraðist nánast á sama tíma og skák Braga.

3. borð: Jóhann hvítt á Yilmaz

 

Rd6_johann

Jóhann mætti enn og aftur gríðarlega vel undirbúinn til leiks. Ég hafði hvíslað því á Facebook að von væri á rólegu afbrigði í Najdorf en Jóhann hafði í raun "pinnað" það algjörlega niður hvað andstæðingurinn myndi tefla og ætlaði í Be2 afbrigðið gegn Najdorf.

Á daginn kom að Jói var nánast með þessa leiki alla, f3, g3, Hae1 og Ra1 í tölvunni fyrr um daginn. Þessi Ra1 manúvering er reyndar þekkt í þessum stöðum. Hugmyndin er Ra1-c2-b4 og hoppa inn á c6 reitinn. Þessi hugmynd þvingar oft ...a5 leikinn hjá svörtum en þá hefur svartur veikt sig og hvítur hefur ýmsa möguleika til að nýta sér það. Margir voru hrifnir af þessari manúveringu hjá Jóhanni:

Rd6_bjossi

Jóhann tefldi í raun algjöra módelskák í Karpov stíl í þessu afbrigði. Handbragðið algjörlega frábært. Ef Jóhann hefði fundið nákvæma leiki í kringum 30. leik hefði í raun verið um algjöra kennslubókarskák að ræða.

Rd6_johann_yilmaz

Á þessum timapunkti var Jóhann í raun búinn að búa til kebab úr svörtu stöðunni 

Því miður missti Jóhann þráðinn á þeim punkti og Tyrkinn komst inn í skákina með góðri varnartaflmennsku, raunar svo góðri að hann neyddi Jóhann í skiptamunsfórn. Svartur hefur líklegast staðið betur en ekki var hlaupið að finna vinninginn.

Þegar fyrstu tímamörkum var náð vildi Tyrkinn í raun bjóða jafntefli. Hann bað liðsstjórann Krasenkow um leyfi en hann sagði honum að tefla áfram. Þegar þetta átti sér stað var staðan 1,5-1,5.

Yilmaz reyndi eitthvað áfram en Jóhann tefldi vel. Eftir tímamörkin eyddi Yilmaz miklum tíma í að reyna að finna leið til að tefla til vinnings en gekk brösulega. Ástæðan fyrir því var einfaldlega að flestar vinningstilraunir þýddu mikla áhættu og í raun það mikla að Jóhann hefði þá fína sénsa á að taka af honum vinninginn. Þegar klukka Yilmaz sýndi um 2 mínútur eftir á alla skákina var Krasenkow liðsstjóri Tyrkja orðinn svo stressaður að hann gaf skákstjóra merki um að hann ætlaði að tala við sinn liðsmann og bað hann vinsamlegast um að bjóða jafntefli hið snarasta.

Jóhanni var mikið létt þegar boðið kom en tók sér samt akademískar 30 sekúndur í að taka boðinu og tryggði þar gott jafntefli 2-2 við Tyrkina. Krasenkow var lítillega disgusted út í Yilmaz og spurði hann hvers vegna í fjandanum hann hefði skipt upp á drottningum. Ég spái honum hvíld á morgun!!

4. borð: Bragi svart á Can

P1040651

Bragi mætti "heitur teitur" til leiks í þessa skák við Emre Can með fjóra vinninga úr jafn mörgum skákum. Emre þessi á sér alnafna í liði Liverpool í knattspyrnu sem hefur skapað ófáa brandarana á samskiptamiðlum.

Skák útgáfan af Emre Can virðist þó vera minna á bekknum og mætti galvaskur til leiks. Bragi líka og var vel undirbúinn. Upp kom Ragozin afbrigðið og Bragi var alls óhræddur við tilburði Tyrkjans. Snemma varð ljóst að Tyrkinn hafði í raun lítið fram að færa og fékk Bragi fína stöðu. Mannsaugað mat það þó svo að Tyrkinn stæði aðeins betur. Rannsóknir eftirá bentu þó til þess að Bragi hefði í raun að mestu haft betra í tölvunum og átt enn eina þétta og vel teflda skák.

Rd6_bragi_can

Erfitt var að finna plan á báða bóga í lokin og þráleikið

Tyrkinn gerði í raun ekki neitt og staðan var í algjöru dýnamisku jafnvægi þegar upphófst endurtekning leikja. Tyrkinn vatt sér að Krasenkow liðsstjóra sem gaf leyfi fyrir þrátefli. Can lék og boltinn var hjá okkur. Bragi spurði mig ráða en aðeins voru um 3 mínútur á klukku Braga og Hjörvar við það að klára sína skák og því aðeins Jóhann eftir. Ég ákvað að jafnteflið væri skynsamlegt og við settum traustið á Jóhann. Jafntefli niðurstaðan og Bragi heldur áfram að tefla vel með 4,5 úr 5 skákum.

Í herbergi 537 þar sem Gulla og Lenka hafa það yfirleitt gott kom spurning um hvaða læti hefðu eiginlega verið rétt fyrir umferð í herbergi 535 (hvar undirritaður og Bragi voru staddir)....hér er svarið við því:

Greinilegt að motivation ræðurnar eru að virka hjá okkur :-)

Í ljósi þess að Tyrkirnir voru að meðaltali næstum 100 stigum hærri en við á öllum borðum verða þetta að teljast frábær úrslit.

Rd6_results

 

Mótið

Þó lítill tími gefist í raun til að fylgjast með eru engu að síður gaman að labba á milli og bera alla fremstu skákmenn heims augum. Ekki er síður gaman að labba um neðri borðin og sjá flóruna af allskonar fólki frá öllum heimshornum. Eins og áður segir eru vinir okkar í Suður-Súdan i miklu uppháldi en ég tek alltaf rúnt fram hjá þeirra skákum. Í raun magnað að fylgjast með hvað þeir eru harðir, þrir þeirra stigalausir og ekki með neina þjálfun en margir hverjir að tefla vel yfir 2000 stigum að því er virðist.

Indverjar eru að slá í gegn hérna. Þeir hafa unnið allar sínar viðureignir og virðast vera að springa út með ungt og skemmtilegt lið. Í liði þeirra er enginn Anand sem fyrr og Krishnan Sasikirian ekki í liðinu og eins kemur á óvart að sjá ekki Abhijeet Gupta Íslandsvin.

Bandaríkin koma í öðru sæti en þeir hafa misst niður óvæntan hálfan matchpoint eftir jafntefli við Íslandsbanana frá Tékklandi. Bandaríkjamenn unnu góðan sigur á Úkraínu í 6. umferðinni. Úkraína var spútnikliðið ásamt Indverjum með fullt hús fyrir umferðina en þeir verða að sjálfsögðu áfram í toppbaráttu enda nú þegar búnir að leggja Rússa og Kínverja þrátt fyrir tapið gegn Bandaríkjamönnum. Caruana tryggði sigurinn með því að kreysta dropa úr steini gegn Eljanov. Bandaríkjamenn til alls líklegir.

Rússar, Kínverjar og Hollendingar koma svo í humátt á eftir með eitt tap á bakinu ásamt öðrum. Í þeim hópi er einnig skemmtileg lið Kanada sem mæta Úkraínu i 7. umferðinni. Nú fer virkilega að sverfa til stáls og verður gaman að fylgjast með næstu umferðum!

Einstaklingar að skara framúr

Hjörvar var í góðum hópi manna með fullt hús 5 af 5 fyrir umferðina. Eftir umferðina er aðeins einn eftir með 6 vinninga af 6 en Hjörvar kemur í humátt á eftir í góðum hópi.

Rd6_top_performers


7. umferðin

Í 7. umferð er komið að annarri traustri sveit. Grikkir eru númer 18 í röðinni og við því að fá sveitir 17-19 í þessu móti. Til marks um hvað Grikkir hafa verið traustir töpuðu þeir sinni fyrstu skák í dag þegar Stelios Halkias tapaði gegn Azerbaijan. Tyrkirnir hafa ekki enn tapað viðureign en hafa gert mikið af jafnteflum í stökum skákum. Ég tel okkur eiga finan séns á að ná úrslitum gegn þessari sveit þó að vissulega séu þeir traustir og stigahærri en við. Við búumst við að Halkias hvíli og að við mætum aðalliði þeirra.

Áfram Ísland, muna að negla og "I AM A CHAMPION!"

Frá Baku í Azerbaijan, 

Ingvar Þór Jóhannesson - liðsstjóri í opnum flokki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 26
  • Sl. viku: 130
  • Frá upphafi: 8779010

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 103
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband