Leita í fréttum mbl.is

Ólympíuskákmótið: 5. umferð í kvennaflokki

Ísland 1 ½ - Mexíkó 2 ½

Andstæðingar okkar í 5. umferð voru Mexíkó (meðalstig: 2082). Stelpurnar voru fullar sjálfstrausts fyrir umferðina, enda hafa þær verið að tefla vel. Sigrar okkar bæði gegn Englandi og Moldavíu hafa vakið athygli. Margeir Pétursson kom til Bakú í gær og tók meðal annars góða æfingu með okkur í dag þar sem við fórum yfir skákir gærdagsins. Hann færði okkur einnig sérstakar kveðjur frá íslenska landsliðshópnum í knattspyrnu sem gladdist víst mikið yfir sigri okkar á Englendingum í 3. umferð.

14249743_10154602287373291_1169357088591466676_o

Lið Mexíkó var að mestu skipað ungum skákkonum sem mætti sennilega segja að séu efnilegar og ,,underrated‘‘ eins og margir skákmenn frá Suður-Ameríku. Við höfðum reyndar komist að því í undirbúningi okkar fyrir umferðina að þær virtust ekki vera neitt sérstaklega sterkar í byrjunum. Við lögðum því upp með að koma þeim aðeins á óvart.

Lenka hafði hvítt á 1. borði gegn WIM Diana Carime Real Pereyra (2136). Pereyra var með 4 vinninga í 4 skákum, fyrir umferðina, og hafði verið að tefla mjög sannfærandi. Hún hafði teflt vafasamt afbrigði í Sikileyjarvörn fyrr á mótinu og við fórum vel yfir það. Lenka tefldi af miklum krafti og Pereyra fékk algjörlega óteflanlega stöðu þar sem hún náði hvorki að virkja biskupinn á f8 né hrókinn á h8. Lenka bætti stöðuna jafnt og þétt og á hárréttum tímapunkti lét hún vaða og fórnaði manni fyrir óverjandi sókn.

5lenka

Hér lék Lenka 22. Rdxe7! og eftir 22...Bxe7 23. Rxd6 Bxd6 24. Hxd6 Hc7 25. e5! hrundi svarta staðan.

Pereyra varðist ágætlega í framhaldinu en Lenka gerði engin mistök og skipti upp í endatafl þar sem hún hafði drottningu og sex peð gegn tveimur hrókum og þremur peðum. Hrókarnir unnu illa saman og á meðan ýtti Lenka samstæðum frípeðum sínum á g- og h-línunum sem Pereyra átti engin svör við. Glæsilegur sigur hjá Lenku sem er búin að eiga frábært mót hingað til.

Guðlaug hafði svart gegn WIM Alejandra Guerrero Rodriguez (2043) á 2. borði. Við áttum von á að Rodriguez myndi tefla Alapin afbrigðið gegn Sikileyjarvörn og bjuggum okkur vel undir það. Hún kom okkur á óvart með því að leika snemma b3 og upp kom frekar óvenjuleg staða þar sem hvítur stóð alltaf betur. Raunar var staða Gullu strategískt vafasöm í miðtaflinu en hún varðist af mikilli hörku og það var ekki auðvelt fyrir hvítan að finna eitthvað rakið þó staðan liti vel út. Eftir tímamörkin gat Rodriguez unnið peð á f4 og þá hefði Guðlaug átt erfiða vörn fyrir höndum. Sem betur fer tók sú mexíkóska þá ákvörðun að taka peðið með drottningu, í staðinn fyrir hrók, og þá gat Gulla leppað hvíta hrókinn á d4 sem leit mjög hættulega út fyrir hvítan.

5gulla

Hér lék Rodriguez 43. Dxf4? í stað 43. Hxf4. Gulla svaraði með 43...Dc5! með hugmyndinni 44. Hd1 Hd8!

Ég hélt jafnvel að við værum að stela sigrinum á þessum tímapunki en Rodriguez fann einu vörnina sem byggðist á þráskák með 43. Dxf4 Dc5 44. Hb8 sem ekkert var hægt að gera við. Jafntefli niðurstaðan.

Hallgerður Helga hafði hvítt á 3. borði gegn WIM Lilia Ivonne Fuentes Godoy (2142). Halla ákvað að koma henni á óvart með því að drepa snemma með biskup á c6 í Sikileyjarvörn og leika b3 í framhaldinu, eins og Anand hafði teflt gegn Gelfand í einvígi þeirra hérna um árið. Hugmyndin var að reyna að fá upp stöðu þar sem væri hægt að tefla gegn tvípeði svarts á c-línunni í anda Nimzowitsch. Sú áætlun gekk fullkomlega upp og auk þess notaði sú mexíkóska mikinn tíma. Halla fékk mun betra tafl og náði að stilla öðrum riddaranum sínum upp á e4, sem ,,kontróleraði stöðunni algjörlega‘‘ eins og Margeir orðaði það. Engu að síður var ekki auðvelt að finna neitt rakið vinningsplan og staðan var svolítið vantefld. Godoy fór að sprikla á kóngsvængnum og var með hættulegar hótanir sem Halla þurfti að eyða töluverðum tíma í að finna vörn gegn. Hún fann mjög góða leið og gat á einum tímapunkti komist út í vænlegt, ef ekki unnið, endatafl.

5halla

Hér gat Halla leikið 27. Dxe6+ með hugmyndinni 27...Dxe6 28. Hxe6 Bf7 29. Rf5! sem þvingar strax fram vænlegt endatafl. Hún lék í staðinn 27. Rf5 sem er líka góður leikur en svartur fékk færi í framhaldinu sem Halla réð ekki við.

Halla missti af bestu vörninni og réð svo ekkert við spil svarts. Godoy komst með hrókinn niður á aðra reitaröð og ásamt sterkum biskup og hættulegu frípeði átti Halla enga vörn. Svekkjandi tap eftir vel útfærða skák.

Veronika hafði svart á 4. borði gegn WFM Miriam Parkhurst Casas (1993). Upp kom sjaldgæft afbrigði Sikileyjarvarnar þar sem sú mexíkóska lék snemma c4. Við vorum með stöðuna eftir 10 leiki á ,,eldhúsborðinu‘‘ fyrir skákina svo Veronika vissi alveg hvað hún var að gera. Eftir byrjunina skipti hún hins vegar um áætlun og ætlaði að losa um stöðuna með því að leika 12...d5. Sennilega hefði verið betra að leika 12...Bd4 og halda stöðunni lokaðri. Eftir að miðborðið opnaðist lifnuðu biskupar hvíts við og í framhaldinu vann Casas peð á e5. Í framhaldinu missti Veronika af leiðindar trikki sem sú mexíkóska lagði fyrir hana, tapaði manni og neyddist til að gefast upp.

5veronika

Hér lék Veronika 22...Hfe8 og tapaði manni eftir 23. Db5 De6? 24. Hxa2! með hugmyndinni 24...Dxa2 25. Bc4. Þess í stað hefði hún átt góða varnarmöguleika með 22...Bb3.

Í stað þess að gefa manninn átti Veronika ágæta möguleika á því að halda stöðunni með því að blokkera peð hvíts á drottningarvængnum. Margeir benti á það eftir skákina að í þannig stöðutýpu væri gott að forðast uppskipti á drottningum, sem var mjög lærdómsríkt. Þessi skák fer í reynslubankann.

Svekkjandi tap 2½ - 1½ staðreynd eftir gott gengi í síðustu umferðum en ég var samt mjög ánægður með taflmennskuna að mörgu leyti. Lenka og Halla áttu vel útfærðar skákir og við hefðum átt að fá 2 vinninga úr þeim á góðum degi. Einnig náði Gulla í gott jafntefli með hörku vörn. Við gætum því hæglega haft 8 stig af 10 í 6.-16. sæti sem væri ótrúlegt. Við erum þess í stað í 31.-58. sæti með 6 stig (vorum í sæti 61. fyrir mótið á stigum). Það þýðir lítið að svekkja sig á þessu því við eigum erfiða viðureign gegn hörkusterku liði Perú (meðalstig: 2175) á morgun, með WGM Deysi Cori (2402) á 1. borði.

Í dag var kærkominn frídagar og sumir (ég), sem hafa lítið sofið síðan við komum til Bakú, gátu hvílt sig vel. Það er gott að halda góðri rútínu á skákmótum, það hafa reynsluboltar í greininni eins og Helgi Ólafsson kennt okkur. Engu að síður er líka mikilvægt að geta brotið rútínuna aðeins upp og við Ingvar og Gummi hvíldum hótelmatinn aðeins í kvöld og kíktum út á rómantískan, þokkalegan pítsustað. Aðrir fóru í skoðunarferðir, göngutúra, kíktu í búðir eða slökuðu á. Það segir ýmislegt um metnaðinn og andann sem ríkir í hópnum að á pítsustaðinum var mesta athyglin á skáksettinu sem Ingvar hafði auðvitað meðferðis.

Þangað til næst, bestu kveðjur frá Bakú.

Björn Ívar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.7.): 19
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 142
  • Frá upphafi: 8778742

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 96
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 11

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband