Leita í fréttum mbl.is

Ólympíuskákmótið: 3. umferð í opnum flokki

OlBaku_Rd3_CrystalSegja má að skyldusigur hafi unnist í dag á sveit Sýrlendinga 3,5-0,5. Fyrirfram vorum við stigahærri á öllum borðum á bilinu 200-400 elostig og því 3,5 eða 4 úrslit sem hefði mátt búast við. Sýrlendingar hvíldu sinn stigahæsta mann í dag en hann hafði í fyrstu umferð náð jafntefli gegn Salgado Lopez hjá Spáni. Sýrlendingar lentu í hremmingum snemma í mótinu með vegabréfbréfsáritun og voru aðeins þrír mættir í fyrstu umferð gegn Spánverjum. Þeir sóttu hinsvegar í sig veðrið í annarri umferð og unnu þar Mauritius 3,5-0,5.

1. borð - Hannes hvítt á A.K. Rayes (2254)

Hannes tefldi eins og í fyrstu umferðinni örugga skák með hvítu mönnunum. Svipað og í fystu umferð var drepið á d4 og margt líkt með þeim skákum í raun og veru. Í báðum tilvikum var Hannes mjög fljótur að fá yfirburðartafl. Í skákinni í dag lék andstæðingurinn ónákvæmum leikjum og lenti fljótlega í algjörri "krippu". Var staða hans í raun svo léleg að Björn Ívar liðsstjóri kvennaliðsins lýsti yfir áhyggjum yfir því að Hannes færi að patta svartan í miðtaflinu, svo léleg var staðan.

Ol_Rd3_HannesPos

(Staðan hvar Björn Ívar hafði áhyggjur af því að svartur væri að verða patt)

Niðurstaðan auðveldur vinningur.

2. borð - Hjörvar svart á G.Bello (2096)

Anstæðingur Hjörvars tefldi varíant á hvítt sem Hjörvar er með 9-0 skor´í! Hjörvar beið spenntur eftir endirbót eða einhverju óvæntu en upp á slíkt var ekki boðið. Var Hjörvar í raun kominn með yfirburðartafl og hvítur búinn að gera það mörg mistök að honum fannst að hann ætti að vinna stöðuna tiltölulega hratt. Hjörvar lagði því e.t.v. aðeins of mikið á stöðuna þar sem hann taldi að hún ætti að vinnast hratt og örugglega. Í staðinn varð verkefni aðeins lengra og erfiðara og varð Hjörvar að snúa hann niður í tímahrakinu. 

Ol_Rd3_HjorvarPos

Staðan úr byrjuninni, svartur með allt sem hann vill!

Í raun var sigurinn þó aldrei í mikilli hættu en samt fékk andstæðingur Hjörvars einn séns á að bjarga sér. Eins og svo oft, þá er munurinn á styrkleika skákmanna að nýta þessa sénsa og það gerði andstæðingur Hjörvars ekki :-)

3. borð - Jóhann hvítt á Sohib (2153)

Jóhann tefldi Spánverjann og kom andstæðingi sínum á óvart með d3 afbrigði sem hann hafði ekki stúderað. Svo vildi til að andstæðingur hans hafði stúderað vel og bjóst við aðalafbrigðum með He1 og vísaði í nokkra sigra á Short hjá Jóhanni. Jóhann hafði stúderað þetta afbrigði fyrir skákina og þá helst þessa blessuðu ofurstórmeistara með 2700 stig. Því miður áttaði Jóhann sig á að þessir 2700 stórmeistarar eru bara ekki að tefla upp á neinn skapaðn hlut með hvítu. Jóhann hafði fylgt bestu skákmönnum heims en svartur í raun jafnar taflið nokkuð auðveldlega.

OlBaku_Rd3_Johann

Jóhann var í raun sáttari við skákina eftir að hafa litið á hana í tölvu eftirá þar sem andstæðingur hans gerir í raun engin mistök. Sohib hafði á nokkrum stöðum breytt útaf því sem ofurstórmeistarnir voru að tefla og svo leikið leik sem leit út eins og hálfgert leiktap en tölvurnar segja að svartur komist upp með þessa taflmennsku.

Í stöðunni áður en Jóhann lék Bd5 hugaði hann vel og lengi í 35 mínútur og fór með megnið af tímanum sem hann hafði áunnið sér umfram andstæðing sinn. Jóhann taldi að hvítur hlyti að eiga eitthvað þar en fann ekkert enda líklega ekkert í stöðunni. Staðan var algjörlega jöfn en Jóhann missti þó mikilvægt peð á d5. Andstæðingur hans bauð honum umsvifalaust jafntefli í sameiginlegu tímahraki. Jóhann taldi þó að hann hefði enn færi en þegar hann uppgötvaði að sú leið sem hann ætlaði að velja var í raun töpuð (eftirá komumst við þó að því að hún var jafntefli) þá var það orðið of seint og Jóhann varð að velja annan leik en hann hafði ætlað sér. Varð niðurstaðan þá hróksendatafl sem líklega var tapað á hann. Sem betur fer var þó loksins komið að Sýrlendingnum að sýna af hverju hann er ekki stigahærri og jafntefli varð niðurstaðan eftir nokkur mistök hjá honum.

Ol_Rd3_JohannPos

Hér náði Jóhann skemmtilegri "X-ray" skák á a8. Andstædðingur hans bauð svo jafntefli eftir ...Kh7 en Jóhann hafnaði því eins og áður sagði. Skömmu síðar kom yfirsjónin í sameiginlegu tímahraki þeirra.

 

4. borð - Bragi svart á Alzaim (2259)

OlBaku_Rd3_Bragi

Bragi tefldi hér mjög góða skák gegn stigahæsta liðsmanni Sýrlendinga í þessari viðureign. Andstæðingur hans tefldi traust afbrigði í e3 Nimanum sem gefur hvítum meira rými þó að sé ekki jafn hættulegt og það lítur út fyrir að vera.

Þrátt fyrir rýmið tefldi Bragi mjög þematískt og lék ...e5 á réttum tíma og smátt og smátt sprakk staða hans út. Skákin var í raun mjög lærdómsrík. Líklegast voru fyrstu strategísku mistökin að leyfa svörtum að drepa á c3 og losna við svartreitbiskupinn. Eftir það varð svarta staðan auðteflanleg og eiginlega unun að fylgjast með Braga stinga sér inn í allar holur sem hvítur skildi eftir í hvítu stöðunni. Eftir að fór að fjara undan mögulegu frumkvæði hvíts fór hann að veikja sig með leikjum eins og f5 og a4 og Bragi nýtti sér það meistaralega. Sérstaklega var skemmtilegt hvernig riddarinn á a6 fór á c7 en svo lúmskur aftur á a6 eftir að hvítur veikti sig með a4.

Ol_Rd3_BragiPos

Eftir að flóðgáttirnar opnuðust var bara tímaspursmál hvenær og hvernig Bragi myndi klára skákina. Varkárari menn hefðu valið ...Dd1 og skipt upp á drottningum en Bragi var með sjálfstraustið í botni og hafði trú á sér og stöðunni og sigldi vinningnum í heimahöfn.

 

Næst á dagskrá í 4. umferð eru frændur okkar Færeyingar. Við eigum í raun harma að hefna þar sem þeir náðu jafntefli gegn okkur í Tromsö. Slíkt verður ekki í boði og sigur eina sem við sættum okkur við!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.7.): 11
  • Sl. sólarhring: 26
  • Sl. viku: 134
  • Frá upphafi: 8778734

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 90
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband