Leita í fréttum mbl.is

EM-pistill nr. 9: Og þá eru það Ólympíumeistararnir - Hjörvar alþjóðlegur meistari

Það fór svo að við töpuðum fyrir Serbum í sjöundu umferð sem fram fór í gær. Viðureignin var allan tímann mjög spennandi þótt ljóst væri frá byrjun að það hallaði á Ísland var lengi möguleiki á að halda jöfnu. Í dag mætum við sjálfum ólympíumeisturunum. Við þá pörun var ljóst að Hjörvar nær sínum lokaáfanga að alþjóðlegum meistaratitli. Ivanchuk hvílir hjá Úkraínumönnum. Helgi kemur aftur inn hjá okkur. Björn hvílir.

Ivanchuk var afslappaður í gær eftir skák. Mótið er orðið að martröð fyrir Ólympíumeistarana. Ég sá hann á spjalli við Korchnoi og Bragi hélt sig hafa séð þá vera að drekka bjór! Nú í hádeginu strunsaði Ivanchuk, algjörlega í eigin heimi, framhjá borði Eljanov og settist einn. Hinir Úkraínumennirnir sátu svo á allt öðrum stað. Manni grunar að andinn sé ekki sem bestur eftir gengið.

Það skiptir ekki máli hvernig fer hjá Hjörvari í lokaumferðunum tveimur upp á áfangann. Einhvern veginn finnst manni hins vegar AM-titill skipta litlu máli fyrir Hjörvar - hann er miklu betri en það! Hjörvar hefur tekið 3 áfanga í 4 mótum sem segir manni ýmislegt.

En þá að skákum gærdagsins.

Björn Þorfinnsson lék hrikalega af sér í 13. leik og var þá úr leik strax. Allar hinar skákirnar fór fram í önnur tímamörk (40 leikir).

Hjörvar var lengi krappri vörn, varðist vel en náði ekki að halda jafntefli þrátt fyrir mjög góðar tilraunir. Henrik Danielsen hafði lengi vel örlítið betri stöðu á fyrsta borði en náði aldrei að ná fram vinningsstöðu.

Bragi Þorfinnsson átti hins vegar skák dagsins. Vann glæsilegan sigur á stórmeistaranum Branko Damljanovic. Margir Íslendingar þekkja Damljanovic. Hann hefur lengi verið einn sterkasti skákmaður Serba, margfaldur skákmeistari þeirra og hefur oft unnið Belgrad Trophy-mótin sem Íslendingar hafa oft sótt.

Skák þeirra fylgdi skák Hjörvars - Shirovs úr fyrstu umferð fram í 8. leik en þá breytti Serbinn út af, lagði ekki út í sömu flækjurnar og Shirov.

Liðsstjóri Serba var enginn annar en Bosko Abramovic sem margir muna frá Reykjavíkurskákmótinu 1982 þar sem hann var meðal sigurvegara.

Ísland hefur 6 stig er nú í 27. sæti af 38 sveitum og er þrátt fyrir tapið næstefst Norðurlandanna. Svíar eru efstir með 7 stig eftir sigur á Tyrkjum. Danir hafa 6 stig eins og við eftir jafntefli við Austurríki. Finnar og Norðmenn hafa 5 stig. Finnar unnu Kýpur 4-0 en Norðmenn lágu fyrir Svartfellingum 1-3. Nojarar hafa engan veginn náð sér á strik á mótinu.

Pörun Norðurlandaliðanna í næstsíðustu umferð er mjög athyglisverð, vægast sagt. Við fáum semsagt Ólympíumeistarana, Danir frá Ísrael og Finnar fá Englendinga! Allt lið sem eru afar sterk á pappírnum. Svíar , sem eru efstir, fá hins vegar Svartfellinga og eru komnir með aðra höndina á „Norðurlandameistaratitilinn". Norðmenn fá Litháen.

Ég rakst á Ivan Sokolov og Loek van Wely í gær og spurði þá hverja þeir fengju. Þeir fá Armeníu. Ég sagði Íslendinga fá enn sterkara andstæðinga og sá spurnarsvipinn á þeim áður en ég benti þeim á að við mættum Úkraínu.

Aserar yfirspiluðu Búlgari, 3,5-0,5, og eru efstir með 12 stig. Armenar og Rúmenar,eru í 2. -3. sæti með 11 stig. Armenar unnu Frakka en Rúmenar gerðu jafntefli við Þjóðverja. Aserar mæta Þjóðverjum, Armenar fá Hollendinga eins og áður sagði og Rúmenar mæta Ungverjalandi.

Rússar eru eftir í kvennaflokki með 13 stig. Pólverjar eru aðrir með 11 stig. Norðmenn meira en tvöfölduðu vinningatölu sína þegar þeir náðu 1,5 vinningi gegn Litháen. Unnu sína fyrstu skák og hafa 2,5 vinning.

Ein óvæntustu úrslit í sögu EM urðu þegar Svisslendingar, án Korchnois, unnu ólympíumeistara Úkraínu, 3-1. Ólympíumeistararnir eru í 26. sæti, einu sæti fyrir ofan Íslendinga. Ég vil benda sérstaklega á skák Efimenko - Forster í þeirri viðureign. Fléttan sem hefst með 27. - Hcxd7 er dýr.

Allt í einu í gær sá ég á mannskapnum að menn eru orðnir dálítið þreyttir. Menn sakna þess nokkuð að hafa ekki frídaginn, sem hefði verið gott að hafa eftir 5 eða 6 umferðir til að fara í bæjarrölt, út á strönd eða eitthvað öðruvísi en vanalega. Hins vegar gildir þetta auðvitað um allar aðrar sveitir og óþarfi að væla yfir þessu!

Athyglisvert atvik gerðist í gær í viðureign Englendinga og Pólverja í skák Pert og Miton. Miton krafðist þess að Pert léki manni sem hann sagði hann hafa snert. Pert sagðist ekki vera viss um að hafa snert hann. Eftir skoðun mótshaldara var krafa Miton tekin gild. Það var gert á þeim forsendum að það sæist í útsendingarbúnaðnum að Pert hafi snert peðið. Pert tók þessu mjög illa strunsaði út, þegar klukkan var sett á hann. Liðsstjórinn Lawrence Cooper elti hann og Pert snéri aftur eftir nokkrar mínútur og kláraði skákina, ekki par sáttur.

Tyrknesku strákarnar klikkuðu ekki á dresskóðanum aftur og mættu allir eins klæddir. Liðsstjóri þeirra, Grikkinn Grivas, er hins vegar klæddur eins og útigangsmaður!

Að vera í Grikklandi og lesa svo netmiðlana er sérstakt. Hér er greinilega allt á hvolfi þótt maður verði á engan hátt var við það. Það er ekki ljóst hver verður forsætisráðherra, þar sem ekki næst saman um neinn, sjá t.d. hér: http://mbl.is/frettir/erlent/2011/11/10/enn_bedid_nys_forsaetisradherra.

Ég spjallað við grísku mótshaldarana í gær, sem eru orðnir miklir vinir mínir, og aðalbrandarinn þeirra að allir væru með kveikt á símanum til að bíða eftir að hringt væri í þá og þeir beðnir um að taka að sér forsætisráðherraembættið!

Búið er að herða allar GSM-reglur hér. Um daginn komu miklir skruðningar í hljóðkerfinu þannig að allir hrukku í kút. Nú er skylda að slökkva á öllum símum (ekki nóg að setja á silent). Nú er því orðið enn erfiðara fyrir mig að nota GSM til að senda SMS. Þarf þá að komast út úr húsi, kveikja á símanum og slökkva aftur. Menn verða því væntanlega að sætta sig alfarið við Chess-Results það sem eftir er.

Við höfum fengið margar góðar kveðjur hingað út eftir ýmsum dreifleiðum, meðal annars frá utanríkisráðherra sem sendi okkur baráttukveðjur. Við þökkum fyrir allar góðar kveðjur!

Minni á myndaalbúm mitt á Facebook. Bæti við fleiri myndum í kvöld. Smá getraun. Hvern vantar algjörlega í myndasafnið?

http://www.facebook.com/media/set/?set=a.10150389656533291.379373.731303290&type=1&l=736f9bda12

Meira á morgun. Þá verður pistillinn fyrr á ferðinni þar sem umferðin hefst kl. 11.

Kveðja frá Porto Carras,
Gunnar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

þig?

Arnar Ingi (IP-tala skráð) 10.11.2011 kl. 17:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 18
  • Sl. viku: 142
  • Frá upphafi: 8778676

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 80
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband