Leita í fréttum mbl.is

Liberec open - pistill sjöttu umferðar og pörun sjöundu umferðar

Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir (2023) - Flemming Haupt Hansen (2100) 1-0
Hallgerður tefldi mjög skrautlega skák gegn einum af dönunum.  Fljótlega eftir byrjunina stóð hún með pálman í höndunum með tvo hróka og mann gegn drottningu.  Staðan var þó mjög flókin og hótaði sá danski skákum af öllum mögulegum gerðum í tilraunum sínum til að ná þráskák.  Í tímahraki Hallgerðar náði sá danski að plata af henni hrók og stóð nú uppi með unnið tafl með drottningu á móti hrók og riddara.  Hallgerður varðist vel og leit jafnvel út að skákin myndi hugsanlega enda með jafntefli eftir allt saman þegar sá danski misreiknaði sig illa, fórnaði drottningunni fyrir hrókinn og hélt að hann hefði tryggt sér sigur með því að vera með óstöðvandi frípeð.  Hallgerður gerði sér hins vegar lítið fyrir og stöðvaði peðið auðveldlega með riddaranum og sá danski neyddist til að gefast upp í koltöpuðu peðsendatafli.  Það tók Hallgerði langan tíma að ná áttum eftir þessa furðulegu skák og það að hafa verið í standandi tímahraki (undir þremur mínútum) í rúmlega 30 leiki.  Punkturinn er þó vel þeginn og er sannarlega eitthvað sem íslensku stelpurnar eiga skilið því þær hafa verið frekar óheppnar í mörgum skákum hér.

Pavel Postuba (2039) - Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (1803) 1-0
Ég hélt á tímabili að einhvers konar líkamskipti hefðu átt sér stað í dag.  Á meðan allt var upp í loft hjá Hallgerði, þá tefldi Jóhanna mjög traust og yfirvegað.  Venjulega er þetta þó á hinn veginn hjá þeim vinkonum, allt upp í loft hjá Jóhönnu og skákir eiga það til að skipta reglulega um eigendur, en öllu rólegri og yfirvegaðri stöður hjá Hallgerði. Jóhanna fékk fljótlega betri stöðu upp úr byrjuninni og fataðist hvergi flugið í úrvinnslunni og vann mjög sannfærandi sigur í dag.
 
Tomasz Motil (2027) - Hrund Hauksdóttir (1592) ½-½
Hrund er að tefla gríðarlega vel á mótinu.  Í dag tefldi hún við pólverja sem er 435 stigum hærri en hún.  Það er skemmst frá því að segja að Hrund tefldi mjög yfirvegað og vandað, gaf hvergi færi á sér og landaði fínu jafntefli eins og að drekka vatn.  Frábærlega vel gert hjá henni.

Tinna Kristín Finnbogadóttir (1803) - Rein Thierry (1672) ½-½
Ef það gekk mikið á í skákinni hjá Hallgerði, þá var það lítið miðað við það sem gekk á hjá Tinnu í dag.  Eftir rólega byrjun, lék hún skyndilega af sér manni.  Tinna gerði þá það sem hún gerir best, blés bara til sóknar manni undir og andstæðingurinn varð svo hræddur að hann gaf manninn til baka algjörlega að tilefnislausu.  Tinna tefldi framhaldið síðan mjög vel og var algjörlega að ganga frá andstæðingnum þegar sirkusinn hófst.  Í sinni unnu stöðu er Tinna að fara að leika en verður fyrir því óláni að reka putta (þumalinn) í mann sem hún var ekki að fara að leika.  Andstæðingurinn krefst þess þá að Tinna leiki manninum sem hún rakst í.  Tinna neitar að sjálfsögðu þar sem þetta var slys en ekki ásetningur að leika manninum og kallað er á skákstjóra.  Skákstjórinn fellir þann ótrúlega úrskurð að Tinnu beri að leika manninum og þar sem hann er alráður þá var ekkert annað að gera en að leika manninum og það kostaði hrók.  Tinna sat nú uppi með gjörtapað tafl en tefldi áfram nokkra leiki þar sem andstæðingurinn bætti stöðu sína ekkert.  Ekki veit ég hvort maðurinn skammaðist sín svona mikið eða hvort að hann var bara svona hræddur við leifarnar af sókn Tinnu, en allt í einu bauð hann jafntefli sem Tinna þáði eftir nokkra umhugsun – hún var það móðguð að hún var virkilega að spá í að hafna boðinu.  Ég er hræddur um að andstæðingur Tinnu á morgun fái að kenna á því.

Petr Simon (1782) - Elsa María Kristínardóttir (1708) ½-½

Elsa María tefldi í mögnuðum aðstæðum í dag.  Ég var að velta því fyrir mér hvort að Elsa hefði skipt um mót og væri komin í eitthvert öldungarmót því hún sat á borði út í horni þar sem andstæðingurinn og næstu skákmenn voru allir 65+.  Það setur reyndar skemmtilegan svip á mótið hér að mjög margir bæjarbúar yfir sextugt taka þátt í mótinu.  En ef við snúum okkur þá að skák Elsu, þá var hún ágætlega tefld af beggja hálfu þó ljóst væri að sá gamli stefndi leynt og ljóst að því að gera jafntefli við þessa íslensku skákdrottningu.  Það sást meðal annars á því að hann bauð Elsu jafntefli fimm sinnum í skákinni og í öllum tilfellum átti Elsa erfitt með að hafna því sökum þess að henni langar alls ekki að vera leiðinleg við gamla fólkið.  Semsagt jafntefli í ágætis skák.

Oldrich Suchomel (1659) - Sigríður Björg Helgadóttir (1716) 0-1
Sigríður Björg var búin að jafna sig á gærdeginum og mætti mjög einbeitt til leiks.  Hún tefldi mjög vel í dag og landaði mjög svo öruggum sigri.  Hún ætti að vera komin á beinu brautina núna.

Árangurinn í dag var gríðarlega góður, þrír sigrar og þrjú jafntefli sem verður að teljast mjög gott í ljósi þess að stelpurnar voru stigalægri í fjórum af sex skákum dagsins.  Uppákoman hjá Tinnu setti þó leiðinlegan blett á daginn en það þýðir ekkert að dvelja við það – við bara gleymum þessu (þó ég muni ræða þetta aðeins við skákstjórann á morgun til að svona endurtaki sig ekki) og einbeitum okkur að næstu skákum.  Morgundagurinn verður langur og strangur því það eru tefldar tvær umferðir.  Sú fyrri hefst klukkan sjö að morgni að íslenskum tíma og hin síðari klukkan tvö eins og fyrri umferðir.

Á morgun tefla stelpurnar við:

Vojtech Straka (2246) - Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir (2023)
Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (1803) – Christian Brauer (2115)
Hrund Hauksdóttir (1592) – Zdenek Cakl (2078)
Juliusz Pham (1705) - Tinna Kristín Finnbogadóttir (1803)
Elsa María Kristínardóttir (1708) – Lubos Jina (1811)
Sigríður Björg Helgadóttir (1716) – Benny Christiansen (1375)

Slóðin á mótið er:  http://www.czechtour.net/liberec-open/
Slóðin á úrslit er: http://chess-results.com/tnr58314.aspx?art=2&rd=7&lan=1&fed=ISL&turdet=YES&flag=30
 


Davíð Ólafsson

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.7.): 11
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 141
  • Frá upphafi: 8778753

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 96
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband