Færsluflokkur: Íþróttir
10.8.2007 | 09:06
Sjaldan er ein báran stök
Hér í Singapore er sjaldan ein báran stök - eða eins og heimamenn myndu segja: "It never rains but it pours".
Í 7. umferð mættum við liði Suður-Afríku. Þetta er fjórða miðlungsliðið í röð sem við mætum. Ávallt höfum við mætt ákafir til leiks, ákveðnir í að vinna 3-1 eða þaðan af stærra og komast aftur á efri borðin svo við getum sannað okkur í keppni meðal þeirra bestu.
En úrslitin urðu sem fyrr á annan veg.
Á 4. borði rambaði andstæðingur Helga á snöggan blett í byrjanaundirbúningi hans - og þetta var einmitt hættuleg byrjun þar sem það er dýrt að vera ekki með algjörlega allt á hreinu. Tap var því niðurstaðan.
En sjaldan er ein báran stök, því Ingvar lenti líka í miklu klandri í byrjuninni og tapaði tveimur tempóum snemma. Það er náttúrulega dýrt, sérstaklega þar sem andstæðingurinn heitir
Hercules (ég er ekki að grínast!). Hercules þessi, sem er hrokkinhærður, bólugrafinn, risavaxinn unglingur - afskaplega viðkunnanlegur - sýndi engin grið og Ingvar varð að gefast upp eftir langa endataflsþjáningu.
Strákarnir náðu þó að svara fyrir sig. Daði fékk Drekaafbrigðið í Sikileyjarvörn upp í þriðja skiptið í þessu móti. Það fór eins og allar aðrar skákir hans í þessu hvassa afbrigði að sigurinn lenti hans megin og skipti engu máli þó hann tefldi með hvítt að þessu sinni. Þetta var fjórði sigur Daða í röð.
Sverrir framkvæmdi hinsvegar einn fallegasta svíðing sem undirritaður hefur séð. Fyrst virtist andstæðingur hans vera búinn að ná að þráleika í endatafli, en þá fann Sverrir brellna leið til að vinna skiptamun fyrir peð. Að lokum kom upp endatafl þar sem Sverrir hafði hrók og peð gegn riddara og tveimur peðum. Með því að setja andstæðinginn hvað eftir annað í leikþröng tókst Sverri að vinna bæði peðin, en þá var samt enn nokkur úrvinnsla eftir, því Sverrir var með kantpeð og andstæðingur hans lagði hvað eftir annað pattgildrur fyrir hann. Sverri tókst þó að sjá við þessu öllu og hafði sigur og tryggði okkur þar með jafntefli í viðureigninni.
Annars má þess geta að liðsstjóri Suður-Afríku, sem er hinn viðkunnanlegasti náungi - hefur mikinn áhuga að fá Hróksmenn í heimsókn næst þegar þeir heimsækja Namibíu. Það gæti án efa
verið sniðug hugmynd, því það virðist vera uppgangur í skákinni í Suður-Afríku.
En sjaldan er ein báran stök.
Eftir skák Sverris, sem var yfir 100 leikir, vorum við tveir einir eftir af íslenska liðinu og svo virðist sem síðasta rútan hafi farið án okkar. Við þurftum því að labba meiripartinn af leiðinni heim. Síðan þegar á hótelið var komið var of seint til að vera að skrifa pistill. Daginn eftir lá netaðgangurinn niðri. Í dag tókst mér loksins að komast í internet hér á skákstaðnum.
Torfi Leósson
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2007 | 12:05
Róbert tapaði í síðustu umferð
FIDE-meistarinn Róbert Harðarson (2315) tapaði fyrir tékkneska FIDE-meistaranum Petr Zvara (2440) í 11. og síðustu umferð alþjóðlega motsins í Olomouc í Tékklandi sem fram fór í morgun. Róbert hlaut 6,5 vinning og hafnaði í 4.-5. sæti
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.8.2007 | 20:11
Róbert sigraði í 10. umferð
FIDE-meistarinn Róbert Harðarson (2315) sigraði tékknesku skákkonuna Eva Kulovana (2276), sem er FIDE-meistari kvenna, í 10. og næstsíðustu umferð alþjóðlega móts, sem fram fer í Olomouc í Tékklandi. Róbert hefur 6,5 vinning og er í fjórða sæti.
Lokaumferðin fer fram í fyrramálið.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2007 | 15:11
Jafntefli gegn Suður-Afríku
Sverrir Þorgeirsson og Daði Ómarsson unnu sínar skákir en Ingvar Ásbjörnsson og Helgi Brynjarsson töpuðu.
Íslenska liðið hefur 14,5 vinning að 28 mögulegum og er í 14. sæti. Indverjar eru enn efstir þrátt fyrir 1-3 tap gegn Filippseyingum.
Frídagur er á morgun en í 8. umferð, sem fram fer á föstudag, tefla strákarnir okkar við sveit frá Singapore.
Við fáum svo vonandi nánari fréttir frá Torfa liðsstjóra síðar í dag!
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.8.2007 | 08:46
Lágmarkssigur á Japan
Íslenska sveitin virðist föst í einhverju miðjumoði um mitt ólympíumótið hér í Singapore. Úrslitin eru ýmist 2,5-1,5 eða 1,5-2,5.
Viðureign okkar í dag, gegn Japan, hófst reyndar vel, en bæði Daði og Helgi unnu á innan við 2 tímum. Skák Helga var t.a.m. aðeins 18 leikir.
Hinar tvær skákirnar voru hinsvegar langar og þar reyndust Japanarnir fastari fyrir.
Á 1. borði lenti Sverrir snemma í hálfgerðri beyglu snemma. Hann varðist þó af þolinmæði, en afréð að lokum að gefa tvö peð til að virkja menn sína og einfalda stöðuna. Japaninn tefldi bara allt of vel og sigurinn lenti hans megin.
Enn lengri var skák Matta á 4. borði, en í jafnri stöðu gerði hann þau mistök að vanmeta færi andstæðingsins. Á mikilvægu augnabliki fann Japaninn ekki leið sem hefði getað haldið pressunni gangandi og Matti nýtti tækifærið til að einfalda stöðuna og upp kom jafnteflislegt endatafl sem keppendur sömdu á.
Sem sagt:
Ísland - Japan 2,5-1,5
Af öðru er það að segja að Indverjarnir eru gjörsamlega að strauja mótið. Þeir unnu Ungverja, stigahæstu sveitina, 3,5-0,5 í gær og svo Tyrki með sama mun í morgun.
Indverjarnir eru nú með 19 vinninga eftir sex umferðir og þriggja vinninga forskot á næstu sveit. Enda hefur það komið í ljós að það er ekki allt að marka stigin hjá krökkunum.
Filippseyingar eru t.d. með þrjá stigalausa á 2.-4. borði en eru samt í 2. sæti með 16 vinninga. Á fyrsta borði er síðan undrabarnið Wesley So, AM með 2516 sem ég held að eigi stutt eftir í SM-titilinn.
Torfi Leósson
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2007 | 08:32
Sigur gegn Japan
Íslenska liðið vann sigur á japönsku liði 2,5-1,5 í 6. umferð ólympíuskákmóts 16 ára og yngri, sem fram fór í nótt. Daði Ómarsson og Helgi Brynjarsson unnu sínar skákir, Matthías Pétursson gerði jafntefli en Sverrir Þorgeirsson tapaði.
Sveitin er nú í 16. sæti með 12,5 vinning af 24 mögulegum. Indverjar leiða á mótinu, hafa 19 vinninga.
Í 7. umferð, sem fram fer síðar í dag, teflir íslenska sveitin við suður-afríska sveit.
Torfi Leósson mun án efa gera umferðinni í morgun betur skil hér síðar í dag.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2007 | 22:01
Róbert gerði jafntefli í 8. umferð
FIDE-meistarinn Róbert Harðarson (2315) gerði sitt annað jafntefli í röð er hann samdi um skiptan hlut við úkraínska alþjóðlega meistarann Maxim Chetverik (2347). Róbert hefur 5,5 vinning og er í 4.-5. sæti.
Möguleikar Róberts á að ná sínum lokaáfanga að alþjóðlegum meistaratitli eru nú endanlega fyrir bý en engu að síður er frammistaða Róbers góð.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.8.2007 | 13:43
Gremjulegt tap fyrir Bandaríkjunum

Daði vann reyndar góða skák í Drekaafbrigðinu í Sikileyjarvörn, rétt eins og í 4. umferð fyrr um daginn! Þetta verður eflaust til að gleðja ritstjóra skak.is.
Ingvar tefldi á 1. borði í þessari umferð og virtist vera að vinna glæsilegan sigur þegar allt snerist skyndilega í höndunum á honum og Bandaríkjamaðurinn hafði sigur. Sennilega missti Ingvar af sigri þarna einhvers staðar.
Á 3. borði tefldi Helgi þunga skák. Hann var lengi peði undir, en andstæðingur hans náði ekki að komast neitt áfram og jafntefli varð niðurstaðan.
Matti lenti hinsvegar í vandræðum snemma í sinni skák og andstæðingur hans tefldi þar að auki vel. Tapið reyndist ekki vera umflúið.
Úrslitin urðu því gremjulegt 1,5-2,5 tap.
Íslenska liðið er með 10 vinninga úr 20 skákum.
Ef til vill var það slæmur fyrirboði að við skyldum hitta bandaríska þjálfarann kl.07.00 um morguninn á líkamsræktarstöð hótelsins, en við höfum hafið alla morgna á snöggri líkamsrækt.
Torfi Leósson
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
6.8.2007 | 19:59
Róbert gerði jafntefli
FIDE-meistarinn Róbert Harðarson (2315) gerði jafntefli við þýska skákmanninn Philipp Neerforth (2246) í 8. umferð skákhátíðinnar í Olomouc en fyrir skákina Róbert hafði unnið þrjár skákir í röð. Róbert hefur 5 vinninga og er í 5. sæti.
Möguleikar Róberts á að ná sínum lokaáfanga að alþjóðlegum meistaratitli eru enn fyrir staðar þótt þeir séu litlir en til þess þarf hann vinna allar 3 skákirnar sem eftir eru.
Meðalstig flokksins eru 2297 og 8 vinninga þarf í 11 skákum til að ná áfanga að alþjóðlegum meistaratitli.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.8.2007 | 14:10
Stórsigur og stórtap í Singapore
Annar keppnisdagur á Ólympíumótinu hér í Singapore hófst með góðum sigri íslensku sveitarinnar á Zambíu í annarri umferð.
Leikar fóru 3-1 fyrir Ísland.
Sverrir og Ingvar unnu ótrúlega létt á 1. og 2. borði. Matti vann sannfærandi á 4. borði en Helgi tapaði eftir að andstæðingur hans hafði séð lengra fram í tímann í taktískri stöðu. Miðað við taflmennskuna grunar mig að Zambíumenn hafi stillt sínum besta manni upp á 3. borði, en það hef ég séð áður, t.d. hjá Hvít-Rússum á Evrópumóti skólasveita í fyrra.
Það þarf þó ekki að vera að neitt illt búi að baki. Maður veit t.d. ekki hvernig aðstæður eru í Zambíu; kannski héldu þau úrtökumót fyrir sveitina þar sem tefldar voru 15 mínútna skákir.
Við vorum því í hæfilega góðu skapi þegar við mættum Indverjum í 3. umferð síðar um daginn.
Indverjarnir tefla stíft upp á sigur í þessu móti (en þeir hafa aldrei unnið það áður), en til þess að það gangi upp þarf yfirleitt hæfilegan skammt af heppni.
Segja má að þeir hafi tekið út úr þeim banka gegn okkur, því það féll fæst með okkur í dag.
Á 1. borði var andstæðingur Sverris byrjaður að leika kóngnum fram og til baka og átti lítinn tíma eftir. Sverrir hefði sjálfsagt getað fengið jafntefli hefði hann viljað, en ákvað að reyna að gera eitthvað uppbyggilegt frekar. Það virkaði hinsvegar ekki betur en svo en að hann lenti í allsvakalegri indverskri flugeldasýningu. Merkilegt hvað Indverjinn var öruggur í taktíkinni, en hann lék flesta síðustu leikina sína eftir nokkurra sekúndna umhugsunartíma.
Á 2. borði tapaði Ingvar eftir ónákvæma byrjunartaflmennsku, en hinsvegar hárnákvæma taflmennsku andstæðingsins og ekki mikið meira um það að segja.
Á 3. borði átti Daði hinsvegar hugsanlega vinning í endatafli - a.m.k. jafntefli. Ég sá ekki nákvæmlega hvað gerðist, en eitthvað fór þetta í vitlausa átt hjá honum og tap var niðurstaðan.
Á 4. borði tapaði Matti síðan eftir að hafa lent í taktík í stöðu sem ekki mikið virtist vera að gerast. Síðan tapaði hann endatafli sem virtist þó bjóða upp á einhverja möguleika fyrir hann.
Sem sagt, verstu mögulegu úrslit 0-4
Torfi Leósson
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nýjustu færslur
- Ný vefsíða Skák.is!
- Loftur fær Héðin í fyrstu umferð
- Tveir fyrrum heimsmeistarar bættust við á keppendalistann á l...
- Ný alþjóðleg skákstig
- Carlsen vann Aronian - með vinningsforskot og aftur yfir 2850
- Skákklúbburinn Æsir - vertíðarlok
- Fundargerð aðalfundar SÍ
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open hefst á föstudaginn
- Carlsen vann Caruana í fyrstu umferð Altibox Norway Chess
- Þrír efstir og jafnir eftir fyrsta minningarmót Vinaskákfélag...
Tenglar
Mót í gangi
Mót sem eru í gangi hverju sinni
- Íslandsmótið í skák - Icelandic Open Valsheimilið, 1.-9. júní
- Altibox Norway Chess 27. maí - 8. júní: Carlsen og flestir sterkustu skákmenn heims
Lykilvefir
- Skáksamband Íslands Heimasíða SÍ
- Mótaáætlun SÍ
- Vefsvæði Friðriks Ólafssonar Vefsíða tileinkuð Friðriki Ólafssyni
- Skákskóli Íslands
- Skáksögufélagið
- F3-klúbburinn Vildarvinir skákíþróttarinnar á Íslandi
- Tímaritið Skák
- Fischersetur Selfoss
- Skákbækur til sölu
- Bobbý skáksverslun
- Skákhornið Spjallþráður skákmanna
- Skáklandið Stefán Bergsson bloggar
- Skákmyndir
Kennsluvefir
Íslensk taflfélög
Ef þú vilt tefla á netinu!
- Vinaskákfélagið
- Skákfélagið Hrókurinn
- Skákfélagið Huginn
- Taflfélag Reykjavíkur
- Víkingaklúbburinn
- Skákfélag Akureyrar
- Taflfélag Garðabæjar
- Taflfélag Vestmannaeyja
- Æsir
- Skáksamband Austurlands
- Skákdeild Fjölnis
- Skákfélag Sauðárkróks
- Taflfélag Bolungarvíkur
- Skákfélag Selfoss og nágrennis
- Skákdeild Breiðablik
- Skákdeild KR
- Skákdeild Breiðabliks
- Gallerý Skák
- Riddarinn
- Félag íslenskra bréfskákmanna
Erlendir skákvefir
- FIDE Alþjóðlega skáksambandið
- ECU
- The Week in Chess
- ChessBase
- Chess Vibes
- Chessdom
- Your Chess News Umsjón Jóhann H. Ragnarsson
- Bergens Schakklub Besta norræna skákfréttasíðan
- Færeyska skáksambandið
- Bloggsíða Susan Polgar
- ChessCafe Pistlar og greinar
Almanök
Teflt á netinu
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.8.): 93
- Sl. sólarhring: 104
- Sl. viku: 372
- Frá upphafi: 8780095
Annað
- Innlit í dag: 71
- Innlit sl. viku: 244
- Gestir í dag: 69
- IP-tölur í dag: 67
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar