Leita í fréttum mbl.is

Liberec Open - pistill níundu umferðar

Afsakaði seinaganginn á pistlinum í dag en við skelltum okkur beint í sund eftir verðlaunaafhendinguna í dag.  Hrund hélt reyndar áfram að fara á kostum í sundinu þegar hún fór með þjálfaranum í mjög svo skemmtilega rennibraut þar sem maður geysist niður á miklum hraða og brautin endar síðan í eins konar klósettskál þar sem maður snýst í nokkra hringi áður en maður skolast niður um gat í skálinni.  Hrund fór sem sagt með mér upp á efsta pall og leyfði mér að fara á undan.  Ég skolaðist náttúrulega niður með tilheyrandi skvampi og látum, kom mér frá gatinu og beið nú eftir því að stelpunni skolaði nú niður.  Nokkru síðar kemur bara einhver kall niður og ég eitt spurningarmerki í framan þegar ég heyri hlátur fyrir aftan mig.  Hrund hafði semsagt lætt sér niður á næsta pall um leið og ég fór af stað og renndi sér niður hina mjög svo þægilegu barnabraut!  Þetta er geymt en ekki gleymt og mun ég örugglega fá tækifæri til að hefna mín síðar!

Jóhanna Björg Jóhannsdóttir (1803)  - Petr Benes (2089) 0-1
Jóhanna fékk enn einn mikið stigahærri andstæðing.  Hún átti kost á því að fá fína stöðu með því að vinna tvo menn fyrir hrók en missti af því og tapaði upp úr því drottningu fyrir hrók og mann.  Engin leið var að verja stöðuna eftir það og tap varð staðreynd í skák dagsins.  Jóhanna hlaut fimm vinninga af níu mögulegum sem er frábær árangur því hún tefldi allan tíman við mun stigahærri menn.  Til gamans má geta að sá andstæðingur Jóhönnu sem var næstur henni að stigum var aðeins 236 stigum hærri en hún!  Þrátt fyrir tap í síðustu umferð er Jóhanna að skila frammistöðu upp á 2175 stig sem er 372 stigum meira en hún hefur í dag.  Hún mun því hækka verulega á mótinu.
 

Theo Gungl (1802) - Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir (2023) 1-0
Hallgerður tefldi við enn einn guttann í dag.  Drengurinn var greinilega öllum hnútum kunnugur í Caro Kan og lét sér hvergi bregða þótt Hallgerður tefldi annað afbrgiði en hún er vön.  Hann fórnaði fljótlega manni fyrir fína stöðu og skömmu síðar þurfti Hallgerður að gefa mannin til baka og var þá peði undir með verri stöðu.  Drengurinn vann svo mjög vel úr yfirburðunum og vann örugglega.  Hallgerður hlaut fjóra vinninga í mótinu og lækkar því miður eitthvað á stigum.  Reyndar má segja að hún hafi verið afar óheppin með andstæðinga en hún fékk hvert tvo mjög unga og efnilega skákmenn í tveimur síðustu umferðunum sem báðir voru með frammistöðu upp á 200-250 stigum meira en stig þeirra segja til um.  Það hefði verið mun betra að fá eldri skákmenn sem ekki eru í svona mikilli framför í mótinu. 

Hrund Hauksdóttir (1592) - Frantisek Lasek (1862) 1-0
Hrund hélt áfram að tefla eins og engill í dag.  Hrund hlaut fjóra og hálfan vinning í mótinu sem er frábær árangur, sérstaklega þar sem hún tefldi allan tíman við stigahærri andstæðinga.  Hún tapaði reyndar fyrir stigalægsta keppandanum sem hún fékk en sá var með 1799 stig og er annar af ungu snillingunum sem Hallgerður tapaði líka fyrir.  Hrund er að skila frammistöðu á þessu móti upp á 1926 stig sem er 334 stigum meira en hún hefur í dag.  Hrund mun því hækka verulega á stigum fyrir þetta mót. 

Jan Paldus (1540) - Tinna Kristín Finnbogadóttir (1803) ½-½
Tinna átti erfiðan dag í dag.  Hún var búin að vera veik í nótt og ekki nóg með það þá þurfti hún að fara tvisvar eða þrisvar á klósettið í umferðinni til að kasta upp.  Hún vildi samt ekki bjóða jafntefli strax sem hún hefði eflaust fengið því hún kunni ekki við annað en að reyna sitt besta.  Skákin leystis samt fljótlega upp í jafntefli þar sem Tinna treysti sér ekki til að flækja skákina mikið.  Tinna endaði með 4 vinninga og skilaði því að lokum árangri upp á 1763 stig sem er mjög nærri hennar stigum.  Hún mun þó varla lækka á stigum því hún gerði tvö jafntefli við menn sem ekki hafa FIDE stig en lág landsstig.  Tinna átti ágætis mót og sýndi að hún ætti að geta hækkað sig verulega á stigum.  Síðasta umferðin og uppákoman í sjöttu umferð settu þó strik í reikninginn.  Þessar tvær umferðir hafa þó ekki áhrif til hækkunar eða lækkunar þar sem hvorugur andstæðinganna var með FIDE stig.  Þess má þó geta að Tinna er öll að hressast og verður vonandi hin sprækasta í fyrramálið þegar við leggjum á stað heim. 

Sigríður Björg Helgadóttir (1716) - Willem Broekman (2054) 0-1
Sigríður Björg hafði fína stöðu lengi vel í dag og tefldi til sigurs.  Ónákvæm leikjaröð var því miður þess valdandi að hún fékk erfiða stöðu sem henni tókst ekki að verja.  Sigríður hlaut þrjá og hálfan vinning í mótinu og skilaði árangri upp á 1653 stig sem er aðeins undir hennar eigin stigum en hún mun örugglega ekki lækka á stigum því ein tapskákin hennar var á móti unga þýska drengnum sem ekki hefur FIDE stig.  Sigríður var að tefla mun betur á mótinu en stigalegur árangur hennar segir til um.  Ákveðið lánleysi á síðustu metrum nokkurra skáka urðu þess valdandi að hún fékk ekki fleiri vinninga.  Sigríður á samt mjög mikið inni og á örugglega eftir að hækka mikið á stigum fljótlega.  Smá reynsla og örlítið meiri yfirvegun í lok skáka mun skila henni langt.
 

Elsa María Kristínardóttir (1708) - Pavel Haase (1503) 1-0
Elsa María mjög ákveðið til sigurs í dag.  Hún gjörsamlega valtaði yfir andstæðinginn og fékk á tímabili algjörlega ótrúlega stöðu.  Eftir 22. leik Elsu (með hvítt) var komin upp alveg ótrúleg staða.  Skipst hafði upp á drottningum og var kóngur andstæðingsins á c8.  Léttu menn Elsu stóðu á eftirfarandi reitum: Ra8, Rb7, Ba7 og Ba6 og Elsa komin með kolunnið tafl!  Ég man ekki eftir að hafa séð svona áður.  Elsa endaði með þrjá og hálfan vinning og árangur upp á 1715 stig sem er örlítið hærra en hennar eigin stig.  Elsa mun þó lækka eitthvað á stigum þar sem tveir og hálfur af þessum vinningum komu gegn mönnum sem ekki hafa FIDE stig.  Elsa leið nokkuð fyrir það í þessu móti að vera ekki í nægilega góðri kappskákþjálfun en hún teflir þeim mun meira af styttri skákum.  Ef Elsa eykur þátttöku sína í kappskákmótum mun hún örugglega hækka mikið á stigum því getan er klárlega fyrir hendi. Í heildina séð var ég frekar ánægður með útkomuna í mótinu enda árangurinn fínn.  Árangur Jóhönnu og Hrundar stendur algjörlega upp úr, en það hefði ekki þurft mikið til til að fleiri næðu svona árangri.  Einnig var ég mjög ánægður með stelpurnar í ferðinni því þær eru flestar búnar að tileinka sér mjög fagmannleg vinnubrögð á svona mótum.  Auk þess ná þær mjög vel saman sem hópur sem alltaf skilar sér í betri árangri.  Stelpurnar eru reynslunni ríkari eftir þetta mót og lögðu vel inn á reynslubankann í þessu móti. 

Af mótinu sjálfu var ég einnig mjög hrifinn.  Þetta mót hentar gríðalega vel fyrir einstaklinga á því stigabili sem stelpurnar eru.  Þetta mót ætti einnig að henta mjög ungum skákmönnum mjög vel.  Ekki skemmir staðurinn heldur fyrir.  Liberec er bær í u.þ.b. 100 km fjarlægð frá Prag og er bærinn allur hinn þægilegasti.  Hótel Liberec sem við gistum á og teflt var á er algjörlega í miðbænum og stutt ganga er í allt sem maður þarfnast.  Bærinn er mjög hreinlegur og snyrtilegur og hefur upp á margt að bjóða.  Hér er t.d. innisundlaug með mikið af vatnsrennibrautum, bíó, keila og ýmislegt sem hægt er að gera sér til dundurs.  Matur hér er frekar ódýr og verðlag almennt mjög gott.  Það er því ekkert því til fyrirstöðu að mæta á svæðið með alla fjölskylduna.  Einnig eru hér helstu verslanir sem allar konur (afsakið karlrembuna en almennt hafa konur meira gaman af verslunum en karlar) þarfnast, svo sem H&M, C&A auk fjölda annarra verslanna og verðið er miklu betra en við eigum að venjast. Ég vil svo að lokum nota tækifærið og þakka stelpunum fyrir mjög skemmtilega ferð, þær voru allar landi og þjóð til sóma. 


 

Slóðin á mótið er:  http://www.czechtour.net/liberec-open/
Slóðin á lokastöðuna er:
http://chess-results.com/tnr58314.aspx?art=1&rd=9&lan=1&fed=ISL&turdet=YES&flag=30

 

Davíð Ólafsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 13
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 151
  • Frá upphafi: 8765557

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 124
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband