Leita í fréttum mbl.is

EM Landsliða - Lokapistill liðsstjóra

EM9_Ice

Seint koma sumir en koma þó! Ég átti eftir að rita um lokaumferðina okkar gegn Færeyjum og ætla þá í framhaldinu að nota tækifærið og gera aðeins upp mótið.

Við semsagt mættum Færeyingum enn eina ferðina en ótrúlegt nokk er þetta fjórða mótið í röð sem við mætum þeim (EM og ÓL). Ég fór með rangt mál þegar ég hreinlega gleymdi einu af þessum skiptum í síðasta pistli!

Toppbaráttan var á sama tíma mjög spennandi en þar gátu Azerar tryggt sér sigur á mótinu með sigri á Úkraínu á meðan Rússarnir voru líklegir til að anda niður hálsmálið á þeim með því að leggja Þjóðverja að velli.

En að viðureign síðustu umferðar. Við höfum eins og áður sagði mætt Færeyingum ansi oft undanfarið og unnið þá tvisvar 3,5-0,5 en urðum að sætta okkur við jafntefli á Ólympíuskákmótinu í Tromsö árið 2014. Það hjálpaði okkur hinsvegar óneitanlega að Helgi Dam Ziska hvíldi hjá þeim á fyrsta borði aðra skákina í röð. Við höfum ákveðið að pæla ekkert nánar í því, Helgi og Færeyingarnir höfðu sínar ástæður og við leyfum þeim að halda því fyrir sig. En kíkjum á skákirnar.

Clipboard01



Á 1. borði mætti Héðinn Högna Egilstoft Nielsen

EM9_HSS

Högni eygði smá möguleika á að ná IM normi en til þess þurfti hann að leggja Héðin að velli með svörtu mönnunum. Líklegast hefði verið vænlegra til árangurs að hvítt á 2.borði sem gerir einmitt hvíld Helga aðeins furðulegri.

Héðinn tefldi að vanda 1.d4 og fékk á sig Kóngsindverska vörn. Héðinn tefldi Averbakh afbrigðið (Margeir Pétursson skrifaði bók um það fyrir möööörgum árum) og tefldi af miklum krafti.

EM9_Hedinn1

Hér var síðastai leikur Héðins, f5! mjög kröftug peðsfórn sem Högni ákvað að þyggja ekki. Sú ákvörðun var líklega rétt en engu að síður má segja að Högni hafi nánast orðið fyrir valtara. Mjög þétt og góð skák hjá Héðni.

 

2. borð Hjörvar svart gegn Rögvi Egilstoft Nielsen

EM9_HSG

Hjörvar fékk hinn Nilsen bróðirinn en sá hafði átt aðeins betra mót og var búinn að tryggja sér IM áfanga. Hann hefði líklega getað lengt hann með sigri í þessari skák en fékk engu að síður 8 skáka áfanga með því einu að mæta til leiks.

Hjörvar kom nokkuð á óvart með því að beita Caro-Kann og get ég staðfest að þar var ekki mouseslip á ferðinni....þeir sem sáu SnapChat hjá undirrituðum fengu einmitt að sjá eina stöðu af eldhúsborðinu góða fyrir skákina en það var einmitt staða úr Panov.

Það kom semsagt ekkert Hjörvari á óvart í þessari skák í raun.

EM9_Hjorvar1 

Þessi staða var á borðinu hjá Hjörvari fyrir skákina og er hún betri á svartan. Framhaldið telfdi Hjörvar af miklum krafti. 21...Ha2 var einstaklega skemmtilegur leikur en eftir það er staðan einfaldlega koltöpuð.

EM9_Hjorvar2

Flott skák hjá Hjörvari og mjög sannfærandi hjá okkur á efstu tveimur og þetta tryggði þægilega 2-0 forystu. Þegar þessar skákir kláruðust var ljóst að við værum alltaf að ná sigri í viðureigninni og aðeins spurning hversu stór hann yrði.

 

3.borð Hannes hvítt gegn John Rodgaard

EM9_HHS

Hannes bjóst að sjálfsögðu við franskri vörn hjá Rodgaard enda teflir hann lítið annað með svörtu. Þeir endurtóku skák frá því fyrr í mótinu en Hannes bjóst þó frekar við að Rauðgarðurinn myndi breyta eitthvað til. Líklegast gat hvítur haldið smá frumkvæði með 17.h5!?

EM9_Hannes1

Hannes lék hinsvegar Rg5 og upphófst mikil barátta þar sem svartur stóð síst lakar. Upp kom endatafl þar sem jafntefli var líklegast niðurstaðan en Hannes hafnaði jafntefli og juðaðist aðeins og nýtti sér að Rodgaard var orðinn tímanaumur.

EM9_Hannes2

Mér fannst þegar ég horfði að endataflið liti vel út á Hannes í lokin en á daginn kemur að skákin var jafntefli nánast alveg undir lokin. Þá valdi Rodgaard að leika ...Re4 (græna örin) en ..Re2 (rauða örin) hefði líklega tryggt jafntefli þar sem auka möguleikinn á að drepa á f4 tryggir svörtum jafnteflið.

Sannkallaður seiglusigur hjá Hannesi.

 

4.borð Guðmundur hvítt gegn John Árni Nielsen

EM9_GK

Teflt var hvasst á 4.borði þegar Anti-Moscow varíanturinn kom upp. Sú leið líkjist mjög Botvinnik afbrigðinu og stöðurnar oft mjög óræðar. Gummi ruglaði John í ríminu í byrjuninni með ...Bg7 í stað ...Bb7 og mig í raun líka þegar ég hélt að ég hefði teflt þetta afbrigði en fattaði á þeim punkti ekki muninn á stöðunum. John líklega ekki heldur!

EM9_Gummi1

Hér gat Gummi leikið ...g4 og líklegast var Rd2 í kjölfarið of passífur leikur. Re5 hlýtur að vera rétti leikurinn. Í kjölfarið vann Guðmundur peð og hékk vel á því.

EM9_Gummi2

Krítíska augnablikið var svo hér þegar John Árni fórnaði manni á b5 með Bxb5. Sú fórn gekk engan veginn upp og þrátt fyrir smá spil var Guðmundur fljótur að kæfa það. Mannsfórnin með Hxd4 var líklegast vænlegri leið fyrir hvítan til að berjast.

Sigur Gumma þýddi að við unnum hér 4-0 sigur á Færeyingum og þó glæsilegur sé að mörgu leiti þá kannski ekkert afrek þannig séð.

Sigurinn þýddi að við enduðum í 27. sæti en þar vorum við upphaflega í stigaröðinni.

EM_Aze_Ukr

Úrslitin á sjálfu mótinu réðust í lokaumferðinni og voru nokkuð dramatísk þó dramað hafi í raun verið óþarfi.

Ég varð sjálfur vitni að atvikunum sem talað er um í fréttum frá stærstu fréttaveitum.

Frétt frá:  Chess24 og Chess.com

Pono_Naiditsch

Sjá má augnablikið hér að ofan og liðsstjóra Íslands í fjólubláu fyrir aftan. Það sem gerðist eins og ég sá þetta var eftirfarandi:

 

Ég kem að borðinu í stöðunni 1-1 og skákirnar sem voru eftir voru Mamedyarov gegn Eljanov og Naiditsch gegn Ponomariov. Mér sýndist vera klárt jafntefli á fyrsta borði en að Naiditsch gæti reynt eitthvað peði yfir á þriðja borði. Hér stendur Naiditsch upp frá borðinu og fer á klósettið eða að reykja. Næsta sem ég sé er að A.Sulypa liðsstjóri Úkraínu gengur að skákstjóra og hvíslar einhverju að honum. Þvínæst gengur skákstjórinn yfir hinumegin og ræði við Eltaj Safarli liðsstjóra Azera. Eftir það horfir hann á Mamedyarov og Eljanov og það kemur klassískt hnyppa ökklum og hendurnar út og svo takast þeir í hendur og samþykkja jafntefli. Þarna fannst mér eins og liðin hefðu í raun verið að sættast á skiptan hlut á tveimur borðum í einu sem ég hreinlega veit ekki hvort má lengur. Í öllu falli má leikmaður alltaf neita og þarf ekki að hlýða boðum liðsstjóra þegar kemur að jafnteflum.

Hér tók við smá bið...mikið af fólki safnaðist við borðið og menn voru alltaf að líta upp og bíða eftir Naiditsch. Mikið af azerskum FIDE/ECU dindlum og áhrifamönnum og mjög stressaðir. Eftir dágóða bið kom Naiditsch loks að borðinu en Ponomariov hafði þá í millitíðinni leikið riddara sínum til c4 eftir að jafnteflið hafði verið samið á fyrsta borði....það skiptir reyndar engu máli í þessu samhengi ;-)

Naiditisch mætir Safarli sem talar við hann og er væntanlega að segja honum að taka jafntefli og tryggja sigurinn. Naiditsch var hinsvegar ekkert á þeim buxunum og var mjög hissa. Vildi tefla áfram enda augljóslega engin hætta á ferðum, annaðhvort vinnur hann eða skákin verður hvort eð er jafntefli. Það er í raun það sem gerir þetta svo skrýtið því að taphættan hjá Mamedyarov var minna en 1% þannig að í raun kemur þetta út eins og einhver greiði við Úkraínumenn til að ná 3. sætinu þó svo að Azerarnir vinni bara á stigaútreikningum í stað þess að vera bara einir efstir á mótinu.

Það næsta sem gerist er að Naiditsch eftir samtal við Safarli spyr einfaldlega "It's my decision right?" sem engin gat mótmælt og ætlaði Naiditsch einfaldlega að tefla skákina áfram. Fer úr jakkanum og ætlar að setjast niður. Ponomariov stendur þá við borðið eins og hann hafði gert með Naiditsch var að tala við skákstjóra og Safarli og byrjar að tala eitthvað (sem náttúrulega má ekki) og baðar höndum á fyrsta borðið og segir eitthvað á rússnesku og fannst mér hann gefa til kynna að það sem Úkraínumenn hefðu samið með aaaaaðeins betra á 1. borði (mér fannst það bara jafntefli) að þá hefði hann átt að gera slíkt hið sama, eins og þetta væri pakkadíll.

Á endanum tók Naiditsch í spaðann á Ponomariov og sættist á jafnteflið en var ekkert sáttur...sagði m.a. "Ja nje panemajo" sem ég kann ekki að skrifa en það hljómar svona og ég veit að þýðir "ég skil ekki".

Þegar liðsstjórarnir tókust í hendur var þetta ekki komið en hann óskaði Azerum til hamingju og sagði you are the champions, 100% en auðvitað hlutu þeir að vera með það á hreinu fyrst þeir á annað borð treystu sér í stigaútreikningana.

Azerar semsagt unnu mótið og er það einkar glæsilegur árangur í ljósi þess að þeir töpuðu gegn Ítölum í fyrstu umferð og leyfðu jafntefli í þriðju umferð!

Enn eitt mótið þar sem Rússar eru sigurstranglegastir en ná ekki að klára dæmið.

 

EM_Capuccino

Ég ætla að lokum aðeins að gera upp mótið.

 

Undirbúningur

Undirbúningur fyrir mótið var heilt yfir ekki nógu góður. Liðsmenn voru mikið á ferðalögum eða uppteknir í aðdraganda mótsins og því gafst ekki mikill tími fyrir liðið til að koma sér saman og stilla strengi fyrir mótið. Ég verð að taka hluta af þeirri sök á mig. Hinn hlutinn liggur hjá liðsmönnum því það er alveg saman hvað menn peppa sig saman og stúdera fyrir mót, ef menn eru ekki virkir og eru ekki að vinna í sínum málum sjálfir þá hjálpar það ekki mikið. Því miður eru okkar bestu menn ekki eins virkir í því að tefla eins og áður en líklega er það efni í aðra umræðu.

 

Liðsvalið

Guðmundur Kjartansson hefur verið líklegast okkur aktífasti skákmaður undanfarin ár og hann vann sér rétt á mótið með því að verða Íslandsmeistari. Í ljósi þess að sú ákvörðun var tekin að senda einungis fjóra menn á mótið og engan varamenn fannst mér lítið annað í boði en að velja H-in þrjú. Jóhann Hjartarson hefur einnig verið að tefla mikið þó hann sé með "amatör-status" en hann gaf ekki kost á sér í verkefnið enda fór mikill tími frá vinnu í taflmennsku hjá honum og Heimsbikarmótið t.d. eitthvað sem hann hafði ekki reiknað með fyrirfram.

 

Mótshaldið

Grikkirnir komust mjög vel frá mótshaldinu. Staðurinn sem gist var á var mjög flottur, góð herbergi og góður matur á hótelinu sem er mikilvægt. Þó Heronissos þar sem við vorum hafi verið í algjöru low-season var samt sem áður allt sem þurfti, súpermarkaður nálægt okkur og hægt að kíkja á veitingastaði við strandlengjuna ef menn vildu brjóta upp hótelmatinn. Við fórum einmitt í einn flottan liðsmat saman á einum slíkum.

Skákstaðurinn var mjög góður, gott loft og eina sem hægt var að setja út á var að útaf því að fjórir stórir ljóskastarar voru efst í loftunum gat stundum verið þannig að maður varpaði skugga á borðin þegar gengið var framhjá þeim. Einnig fannst mér vanta að hægt væri að sjá skákum varpað á skjá en það er kannski aukaatriði.

Þó að málmleitartæki og ýmislegt sé komið til að vera þá var andrúmsloftið samt afslappað og ekkert stress í gangi hjá fólki. Málin voru bara leyst og var þetta t.d. mun þægilegra en Ólympíumótið í Baku þar sem það var dagaspursmál hvort liðsstjórar gætu verið með bækur að lesa eða ekki og eftirlit alltof strangt. Allavega plús í kladdann hjá Grikkjunum og ECU!

 

Árangurinn

Fyrir mótið vorum við númer 27 í stigaröðinni og það er sætið þar sem við enduðum. Að einhverju leiti mætti því segja að árangurinn sé viðunandi. Við töpuðum öllum viðureignum þar sem við tefldum upp fyrir okkur en unnum allar lakari sveitirnar. Tapið gegn Sviss sat þó í mönnum þar sem það hefði gefið okkur góð færi á að ná góðu sæti. Ljóst er þó að við vitum að við getum betur og sérstaklega gegn Sviss og Tékkum hefðum við átt að ná betri úrslitum og jafnvel gegn Slóveníu. Í öllum tilvikum stóðum við vel í viðureignunum en eitthvað fór úrskeiðis.

EM_Island

 

Árangur einstakra liðsmanna

 

1. borð Héðinn Steingrímsson

EM_Hedinn

Héðinn leiddi okkur á 1. borði enda stigahæsti skákmaður okkar fyrir mótið. Héðinn hefur ekki teflt mikið á árinu en Íslandsmót skákfélaga og í kjölfarið Evrópukeppni taflfélaga var þó góð æfing fyrir mótið.

Heilt yfir var árangur Héðins undir því sem mætti gera ráð fyrir en að sama skapi tefldi hann vel inn á milli. Héðinn fékk aðeins fjórar skákir með hvítu og sýndi mátt sinn þar og vann þrjár þeirra. Í þeirri fjórðu var hann að tefla dýnamíska skák gegn Mchedlishvili og lenti bara í góðum skákmanni þar sem refsaði vitlausu plani í miðtaflinu. Verr gekk með svörtu mönnunum og var Héðni tvisvar refsað fyrir peðaát, gegn Portúgal og Sviss. Jafnteflið við Navara var feykisterkt og þar hefði sigur jafnvel getað dottið.

Rating performance hjá Héðni var 2503 sem er viðunandi en ég er sannfærður um að í betri æfingu hefði Héðinn skilað meira í búið. Héðinn tapar 8,5 stigum á mótinu.

 

2. borð Hjörvar Steinn Grétarsson

EM_Hjorvar

Það var í raun sama með Hjörvar og aðra, hann hefði mátt vera í betri æfingu fyrir mótið. Hjörvar var hinsvegar að klára erfitt nám á árinu og var að eignast sitt fyrsta barn. Hjörvar tefldi að krafti í haust og tók þátt í mikið af mótum hér heima og var því eins og Héðinn kominn í þokkalega æfingu fyrir mótið.

Mótið byrjaði nokkuð brösulega hjá Hjörvar. Hann byrjaði á baráttuskák gegn Rapport sem hann hefði getað haldið með smá heppni hér og þar. Í annarri umferð tryggði hann sigur með því að ná úrslitum gegn Albaniu en var í raun mjög óheppinn að endataflið sem hann komst út í peði yfir nægði ekki til sigurs.

Allt er þegar þrennt er og í þriðju umferð var Hjörvar gríðarlega óheppinn þegar hann tefldi frábæra skák gegn Pantsulaia og yfirspilaði hann algjörlega. Það breyttist þó því miður og glutraðist niður, fyrst í jafntefli og svo í tap.

Hér var mikilvægt að vel færi að ganga svo þetta færi ekki á sálina hjá okkar manni. Hjörvar vann í fjórðu umferð og endaði mótið með 5 vinninga úr síðustu 6 umferðunum og sýndi hversu sterkur hann er.

Árangur Hjörvars samsvaraði 2590 skákstigum og hækkar hann um 3,7 skákstig á mótinu. Vonandi fáum við sjá Hjörvar meira við skákborðið á næstu árum en hann hefur staðið sig mjög vel á síðustu mótum með landsliðinu.

 

 

3.borð Hannes Hlífar Stefánsson

EM_Hannes

Hannes var nokkuð duglegur að tefla í sumar og tók mót í Rúmeníu og tvö í Tékklandi ásamt Íslandsmótinu. Hannes því í þokkalegri æfingu eins og venjulega enda verið okkar virkasti skákmaður um árabil.

Hannes hefur þó aðeins verið að tapa stigum á þessu ári og var að þessu sinni á 3. borði í liðinu en hefur að jafnaði leitt sveitina. Mér fannst margt jákvætt í taflmennsku Hannesar og öllu hans fasi á þessu móti. Hef t.d. ekki áður séð Hannes skella sér út að skokka í miðju móti en það gerði hann eftir góða sigurskák. 

Heilt yfir var mótið fínt hjá Hannesi ef frá er talið miðkaflinn þar sem hann lenti í tveimur töpum sem báru að voða svipað þ.e. að hann hreinlega missti þráðinn í lok skákarinnar og lenti í taktík frá andstæðingnum. Fyrir utan þessar skákir var hann að tefla nokkuð þétt og fannst mér á tíðum glitta í "gamla" Hannes.

Hannes tefldi með performance 2540 og hagnast um 3,7 stig á mótinu.

 

4. borð Guðmundur Kjartansson

EM_Gummi

Gummi átti ekki gott mót að þessu sinni og var gríðarlega seinheppinn á köflum. Hann byrjaði vel með því að bjarga góðu jafntefli í erfiðri stöðu gegn Berkes. Í næstu umferð kom dýrt tap sem skrifaðist á praktísk mistök en ættu vonandi að vera lærdómsríkt. Gummi gat þá endurtekið í 40. leik og tekið ákvörðun eftir tímamörk en lék þess í stað tapleik. Annað tap fylgdi en hann átti fína skák í 4. umferð. 

Í 5. umferð var Gummi algjörlega að yfirspila andstæðing sinn en gerði þá þau klaufa mistök að í raun tefla of mikið upp á tímann og lenti í mjög flottri taktík. Tvö töp fylgdu í kjölfarið en Gummi náði að enda þetta á jákvæðum mótum með sigri í lokaumferðinni.

Árangur Guðmundar samsvaraði 2387 stigum og hann lækkar um 8,9 stig. Gummi er samt alltaf duglegur að vinna í sínum málum í skákinni og ég vona að það fari að skila sér. Einhvern veginn eru mótin oft svolítið sveiflukennd, hann fer úr því að tefla mjög vel og vinna mótin (Íslandsmót, Scottish Open) yfir í að eiga nokkuð slæm mót.  Ég er hinsvegar sannfærður um að ef að Gummi nær að finna sína leka og loka fyrir þá er hann að tefla á stórmeistarastyrkleika, það er ekki spurning!

 

Að lokum vil ég þakka liðinu og Gunnari fyrir skemmtilega ferð og lesendum hér á Skak.is fyrir að lesa pistlana, vonandi að það hafi verið bæði gagn og gaman af þeim!

 

Ingvar Þór Jóhannesson

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 38
  • Sl. viku: 183
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 150
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband