Leita í fréttum mbl.is

EM Ungmenna í Rúmeníu - Pistill #7

20170913_181844

Síðasti keppnisdagur er runninn upp á EM ungmenna á Mamaia í Rúmeníu þegar þessi orð eru rituð.

Síðasta umferðin er aðeins fyrr á ferðinni en hinar en tafl hófst í dag klukkan 13:00 að staðartíma (10:00 íslenskum).

Loks fengum við Íslending aftur á sýningarborð en Vignir er í beinni útsendingu hér: https://chess24.com/en/watch/live-tournaments/european-youth-championship-2017/9/1/46

Lokaumferðin er auðvitað mikilvæg upp á að hoppa aðeins upp töfluna og ná góðu lokasæti. Verður gaman að sjá hvernig það gengur hjá okkar fólki. 

 

 Rennum yfir næstsíðustu umferðina, þá áttundu sem fór fram í gær (13.sept).

U8 

20170913_144443

Bjartur fékk albanskan andstæðing og leit satt best að segja út á hans skákum að Bjartur væri mun lengra kominn í skáklistinni. Ég var allavega bjartsýnn á það sem ég las úr skákunum sem ég sá í skákgagnagrunnum. Við undirbjuggum aðeins leiðir í 1.e4 e5 og bjuggumst einna helst við ...Be7 ungversku vörninni en planið var að tefla svipað og við höfðum skoðað áður gegn ítalska leiknum.

Skákin var engan vegin fullkominn og mistök á báða bóga en Bjartur hafði alltaf frumkvæðið og var liði yfir. Furðulegt nokk fékk hann aftur Rb1xb7 á borðið eins og í umferðinni á undan og aftur var átakspunktur á f7. Bjartur greinilega lærði af reynslunni og braust í gegn á f7 reitnum sem brást honum í umferðinni áður. Sá albanski var svo mátaður.

Bjartur fær rúmenska strák með 1100 stig í dag.

 

U10

20170913_144345

Gunnar atti kappi við serbneskan mótherja og upp kom kóngsindversk vörn eins og við höfðum búist við. Lagt var upp með Petrosian afbrigðið en andstæðingur hans valdi ekki algengustu leiðirnar sem við höfðum eytt mestu púðri í. Úr varð þó baráttuskák enda tryggði góður undirbúningur fína stöðu. Að þessu sinni hafði sá serberneski betur.

Gunnar fær svo einnig erfiðan andstæðing í dag en sá hefur verið á niðurleið í undanförnum umferðum eftir að hafa byrjað vel. Það væri sterkt, sanngjarnt og skemmtilegt ef Gunnar næði að klára mótið á sigri í þeirri skák.


U10 stelpur

20170913_144955

Batel fékk enn einn erfiðan andstæðing. Andstæðingur hennar var tyrknesk stúlka og státaði af WCM titli. Ekki sú fyrsta sem hún fær með þann titil en það þýðir einfaldlega að þar eru á ferðinni sterkar og vel skólaðar stelpur og sýnir þetta kannski best hvað Batel hefur veirð að standa sig vel.

Í umferð gærdagsins tefldi hún nokkuð vel í miðtaflinu þó byrjunin hefði farið eilítið úrskeiðis. Hún hefur gjarnan verið að rétta sinn hlut í miðtaflinu í mótinu. Hún var við það að jafna taflið og eiga sína möguleika í skákinni þegar hún hrifsaði peð í fljótfærni og lenti í leppun sem kostaði mann. Hefði verið gaman að sjá hvernig skákin hefði þróast ef hún hefði náð að tefla stöðuna frá þeim punkti.

Mótið engu að síður enn mjög gott hjá Batel og mikilvæg skák í dag upp á að halda áfram að hala inn elóstigum og ná sem bestu sæti. 


U14

20170913_144614

Um Vigni mætti segja að hann sé að tefla ca. á pari. Hann hefur ekki átt sitt besta mót en að sama skapi er alls ekki hægt að segja að það sé slæmt. Hann hefur sótt í þegar liðið hefur á mótið og er nú kominn á sýningarborð á 5. borði í síðustu umferð og eygir von um að enda í góðu sæti með sigri í lokaumferðinni.

Andstæðingur gærdagsins var hans sterkasti hingað til en Vignir lét það ekki á sig fá og vann sinn besta sigur til þessa.

Hann tók mig þó í bakaríið helvískur en þeir sem þekkja mig vita að ég get verið stríðinn og stutt í húmorinn. Að þessu sinni var komið að Vigni að plata mig hressilega. Ég hitti á hann og Jón Kristinn skömmu eftir að skákum þeirra lauk og fórum við yfir þær. Ég spurði hvernig fór og Vignir svaraði "jafntefli" með sannfærandi ekkert alltof kátur með lífið yfirbragði. Ég hugsaði jæja, ekkert svo slæmt svart á stigaháan gaur og allt í lagi.

Við förum því næst að skoða skákina og ég held á skorblaðinu og fer yfir leikina. Byrjunin var keimlík frægri skák Carlsen-Dolmatov 1.Rf3 f5 2.d3 og virtist hvítur snemma tafls vera kominn með yfirhöndina. Vignir þurfti að hörfa með kónginn til d7 og svo c8 og stóð verr en virtist svo verað að jafna taflið.

Ég hugsaði með mér jú....þetta er gott að ná að halda þessu og var ennþá á því að skákin væri jafntefli. Held áfram að skoða og allt í einu er drottningarendatafl og Vignir að vinna peð.....ég hugsa "wait a minute" og álpast loksins til að líta á úrslitin 0-1. Vignir gjörsamlega springur úr hlátri og ég blóta í sand og ösku ;-)

Flottur sigur með svörtu mönnunum hjá Vigni og nú væri gaman að ná sigri í lokaumferðinni og topp 10 sæti!

 

U18 

20170913_144744

 Að ofan er mynd af viðureign Símons við Slobodan (Skottu). Símon hafði sigur eins og venja er!

20170913_144823

 Jón Kristinn tefldi við mjög sterkan skákmann í 8. umferðinni. Slavi var vopn Jóns og fljótlega var það orðið að Stonewall uppbyggingu hjá svörtum. Króatinn hélt fullri stjórn á stöðunni og varðist trikkum Jóns sem reyndi að hræra í taflinu. Það dugði ekki til og Sven Tica hafði sigurinn að þessu sinni.

Jón Kristinn fær hvítt í síðustu umferðinni og gaman væri að klára þá skák og hafa 2300 elóstigin á birtum lista þegar FM titilinn er tryggður.

 

Úrslit 8. umferðarinnar

Rnd8_results

 

Pörun í síðustu umferðinni:

Rnd9_pairings

Linkur á Chess-Results

Eftir þennan síðasta keppnisdag bíður okkar erfitt ferðalag á morgun þar sem lagt verður í hann með rútu klukkan 09:00 að staðartíma (06:00 íslenskum) og verðum við komin til Íslands um miðnætti ef ég man rétt (ekki með pappírana með mér hér).

Ferðin hefur að mörgu leiti verið fín, staðurinn er skemmtilegur og veðurfar gott. Vissulega var hægt að setja mikið út á hótelið og maturinn á hótelinu skelfilegur en hópurinn hefur almennt verið jákvæður og við höfum bara borðað mikið utan hótelsins enda er ekki dýrt að lifa hér. Flestar máltíðir eru vel undir þúsundkallinum og þó við höfum verið að fara undanfarna daga í verslunarmiðstöðina í Constanta til að borða þá eru leigubílar (þeir sem svindla ekki) að láta okkur borga hálft startgjald í íslenskan leigubíl á meðan sá sem svindlaði á okkur líklega dreif örlítið yfir startgjaldið ;-)

Reyni e.t.v. að skrifa samantektarpistil um árangur okkar fólks á mótinu en ekki víst að það náist á ferðalaginu en það kemur þá í versta falli inn um helgina.

Takk fyrir lesturinn og stuðninginn,

Ingvar Þór Jóhannesson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 26
  • Sl. sólarhring: 36
  • Sl. viku: 202
  • Frá upphafi: 8764604

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 163
  • Gestir í dag: 19
  • IP-tölur í dag: 19

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband