Leita í fréttum mbl.is

Ólympíuskákmótið 2014 - Uppgjör liðsstjóra kvennaliðs

Áður hafði ég ritað pistla um fyrstu umferðirnar og mótsstaðinn auk þess sem ritaður var pistill þegar mótið var hálfnað. Mun reyna að skrifa um það sem gerðist hjá okkur seinni part móts ásamt því að gera aðeins upp árangurinn og annað.

Árangur í "seinni hálfleik"

Fyrstu sex umferðirnar hafði kvennasveitin meira og minna unnið þær sveitir sem þær átti að vinna en fylgt því svo eftir með því að tapa 3,5-0,5 gegn þeim sterkari. Nokkur styrkleikamunur var í þeim viðureignum en engu að síður voru töpin og stór og sérstaklega gegn Venezuela sem virðst hafa eitthvað tak á okkar sveit.

Sigurinn á Bangladesh var þó góður þar sem sú sveit var örlítið stigahærri en okkar. Í 7. umferð unnum við annan góðan sigur á svipaðri sveit þar sem Mexíkó lá í valnum 2,5-1,5 þó að við höfum snemma lent 0-1 undir í þeirri viðureign.

Áframhald varð á jójó-inu og enn töpuðum við 3,5-0,5 og nú gegn nokkuð þéttri tékkneskri sveit. Fyrir þetta tap var kvittað strax í næstu umferð með mjög góðum 4-0 sigri á sveit IBCA (fatlaðir) sem þó voru aðeins örlítið stigalægri en okkar sveit.

Tapið gegn El Salvador voru nokkur vonbrigði í 10. umferðinni en þar tapaðist viðureignin með minnsta mun en fyrirfram hélt ég að við ættum að hafa þar sigur.

Mótið kláruðum við þó á góðum nótum með 3,5-0,5 sigri gegn Jamaíku en þar náðu ansi margar stöður að snúast okkur í hag því snemma stefndi ekki í svo góðan sigur!

Í seinni hálfleik hjá karlaliðinu vannst fínn skyldusigur á Pakistan 3,5-0,5 og því var fylgt eftir með þéttum sigri á nokkuð reyndri skoskri sveit 3-1.  Í kjölfarið komu tvö jafntefli gegn Katar og Tyrklandi sem voru fín úrslit þó sóknarfæri hefði e.t.v. mátt reyna að finna gegn Katar.

Þessi fíni endasprettur þýddi að mikið sóknarfæri var í síðustu umferð gegn Egyptum þar sem möguleiki var að ná besta sæti sveitarinnar í mjög langan tíma. Því miður hittum við ekki áð góðan dag og úr varð gott mót í stað frábærs móts.

Ég mun fara yfir einstaklingsárangur í niðurlagi þessa pistils.

 

Kasparov-partýið

DSC_0568 

FIDE kosningarnar voru á mánudaginn 11. ágúst en laugardaginn 9. ágúst hélt Kasparov smá teiti þar sem meðal annars Nigel Short spilaði á gítar, Elisabeth Paetz tók lagið með honum og magnaður töframaður frá Indlandi lék listir sínar. Ýmis hamagangur var einnig á sviðinu eins og sjá má hér:

 

Þeir sem hamast þarna á sviðinu voru þeir sem dregnir voru í happdrætti aðgangsmiða en gefnir voru heilir þrettán (auðvitað 13!!) Samsung Tablets. Gummi var með miða nr. "H 13" og sturlaðist þegar lesið var "H thirtee.........TWO"

 Myndir úr partýinu:

Töframaður í Kasparov partýi 

Töframaðurinn að störfum, hann var frábær...að neðan er stutt myndbrot þar sem hann hafði verið bundinn af fjórum sjálfboðaliðum. Það varði ekki lengi!

 

Hljómsveit
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
Flott hljómsveit spilaði áður en partýið byrjaði og að því loknu fyrir dansi. 

 
Áður en heim var haldið hittum við mann frá Gabon sem afhenti okkur A4-blað með hans sögu. Hann var réttmætur fulltrúi Gabon og til þess valinn af "Ministry of Sport" í sínu heimalandi og fleira. FIDE (lesist Kirsan) hinsvegar hunsaði það bara og fulltrúinn á FIDE þinginu einhver allt annar.
 
Þarna var mér endanlega ljóst að kosningarnar voru skíttapaðar eins og allir höfðu talað um. 
 


Expo-salurinn
 
Skákstaðurinn sjálfur var að mörgu leiti frekar snautlegur. Reyndar hafði ég ekki aðgang að VIP aðstöðu og e.t.v. hefur Gunnar Björnsson aðra sögu að segja :-)
 
Allavega, skáksalurinn var vel skipulagður en vantaði bæði betri aðstöðu fyrir áhorfendur á neðri borðin og fleira sem ég e.t.v. fer betur yfir á eftir.
 
Ég saknaði þess að sjá enga bóksölu og eins var í raun ekkert afdrep þar sem hægt var að setjast niður en kannski var það erfitt í ljósi "vopnaleitarinnar" við aðalinnganginn.
 
Ég leit þó stundum inn í hið svokallaða Expo herbergi en þar var bein útsending hjá Chessbase, hægt var að kaupa sér hressingu og svo var mikið um kosningabása.
 
Azmai 
 
 Hér má sjá Azmaiparashvili í forsvari fyrir bás Batumi borgar en sú borg vann réttinn að halda  Ólympíuskákmótið árið 2018.
 
Kirsanbásinn 
 
 Básinn hans Kirsan. Þær voru vel þjálfaðar þarna og stilltu sér upp og brostu skvísurnar hans. Bæði Kasparov og Kirsan gáfu öllum keppendum veglegar gjafir eins og áður hefur komið fram, kosningabaráttan var hörð!
 

Kosningarnar
 
Gunnar sat FIDE og ECU þingin og veit því manna best gang mála í kosningunum. Ég visa á pistil hans. Kirsan vann að sjálfsögðu enda kosningavél hans vel smurð og stefnan var sett á fullnaðarsigur. 110 atkvæði gegn 61 var niðurstaðan eins og áður hefur komið fram.
 
Ljóst er að við sitjum upp með þennan Kirsan fýr svo lengi sem honum sýnist. Auðvitað má hann eiga það að hann er ágætis diplómat og kann allskonar trikk. Staðreyndin er hinsvegar sú að hann situr áfram og nú er bara að vinna með honum.
 
Ég tek það fram að það er mín persónulega skoðun að hafa mun fremur viljað Kasparov við stjórnvölinn. Hinsvegar fann ég það að mikill meirihluti keppenda var sammála mér. Flestir sem ég ræddi við voru mjög ósáttir við að Kirsan skildi vinna og eins og ég hef áður sagt þá fengu allir T-boli frá báðum aðilum og bolir Kasparovs voru mun meira áberandi á skákstað, í Tromsö og meira að segja nú eftir mót þegar ég rita þetta (tefldi við mann í slíkum bol í gærkveldi og sá annan erlendan á Facebook í sínum!)  
 
 En eins og ég sagði, kosningunum lokið og það sem meira er nánast allir sem Kirsan vildi koma að komust að og auk þess vann Zurab ECU þannig að segja má að fullnaðarsigur hafi unnist hjá Kirsan & co.
 
Kasparov verloren 
Kasparov hér nýbúinn að tapa kosningum. Væntanlega ekki sáttur
 
Kasparov_bíll 
 
Kasparov var vel merktur út um allt en það dugði einfaldlega ekki til :-( 
 
 
Fótboltinn 
 
Fótboltinn hélt áfram og var mikið spilaður. Aðeins fjaraði undan allra síðustu dagana en í heildina höfum við örugglega farið í fótbolta í 6-8 skipti svei mér þá!

Boltinn var misskemmtilegur. Mjög gaman var þegar jöfn og vel spilandi lið voru á ferðinni en auðvitað er allur gangur á því og sumir blessunarlega mjööööög góðir í skák því hreyfigeta þeirra ekki beint á háu stigi!
 
Hef áður nefnt ýmis nöfn sem tóku þátt en tek bara hérna smá lista til að hafa gaman af: Magnus Carlsen, GM's Borki Predojevic, Alexander Ipatov, Maze, Vachier-Lagrave, Libisewski, Fressinet, Tkachiev, Wesley So, Shulman, Akobian, Julio Granda, Helgi Olafsson og svo mætti lengi telja. 
 
Skemmtileg stemmning var eitt kvöldið þegar Varuzhan Akobian fór hamförum þrátt fyrir getulegar og hæðarlegar hömlur. Í hvert skipti sem hann var nálægt því að skora var hrópaðan á pöllunum "Akooobbbbbiaaaaan" og veðraðist hann allur upp og setti nokkur þrátt fyrir að ekki hafi verið mikil innistæða fyrir því ;-)
 
Virkilega gaman að þessu og bæði var nauðsynlegt fyrir menn að hreyfa sig aðeins og eins var þetta vettvangur til að kynnast ýmsum keppendum betur. 
 
 
Seinni frídagur
 
 
 Veðrið hafði leikið við okkur flest alla dagana en því miður gerði það það engan veginn þegar við héldum upp á fjall þarna í Tromsö og góðan göngutúr. Gengið var yfir forláta brú og þar með af eyjunni. Straumsey (Tromsö) er jú eyja! Hér er pistlahöfundur með Kirsan húfuna en hún var notuð í neyðartilviki þar sem ótækt var að láta rigna á skallann í kuldanum.
 
20140813_160609 

Á miðri leið yfir brúnna að kláfinum. 
 
20140813_162601 

Kvennaliðið vopnaðar regnhlífum á leið að kláfinum.

20140813_163349 

Á leiðinni upp. 
 
20140813_165020 
 
Því miður var útsýnið uppi ekki upp á marga fiska. Þessi mynd ætti í raun að sýna útsýni yfir sjóinn og Straumsey en eins og sjá má var skyggni ekkert!
 
20140813_172213 
 
Við misstum af fyrstu ferð til baka niður og þá var lítið annað að gera en að fá sér gómsætt í gogginn og taka nokkrar léttar tvískákir!
 
 
 
Dauðsföllin
 
Ég hef svosem engan sérstakan áhuga á að fjalla um dauðsföll en því miður var mikið fjallað um það í fjölmiðlum. Við höfðum á orði þarna úti þegar seinna dauðsfallið varð: "nú....verður þá önnur frétt á ______ (ákveðinn fréttamiðill) um Ólympíuskákmótið??"
 
Það er eiginlega skömm að því hvað fréttamiðlar (ekki bara hérlendis) vilja miklu frekar lepja upp svona leiðindafréttir heldur en að fjalla um mótið sem slíkt. Ég fór t.a.m. á twitter og fletti upp hashtaginu #olympiad og var nánast 90% af færslum á þessa vegu  "two people die...."
 
Ég varð því miður vitni að þessum atburði. Borð okkar var tiltölulega nálægt og heyri ég óp um hjálp á borði rétt hjá okkur. Ég geng að því til að sjá hvað er í gangi (ég kann grundvallaratriði í skyndihjálp) og sá þá að eldri maður hafði hnigið niður og var mjög liklega að fá hjartaáfall.
 
Sjúkraliðar komu nokkuð fljótlega á staðinn eftir að hrópað hafði verið á þá.
 
Medics 
 
 Fyrr í mótinu hafði ég einmitt tekið eftir þessum sjúkraliðum en í raun ekki spáð í hversu mikilvægir þeir væru í svo stóru móti.
 
Erfitt var fyrir marga að klára sínar skákir og fannst mér skákstjórum liggja full mikið á að hefja tafl aftur. Byrjað var að tefla aftur meðan lífgunartilraunir stóðu yfir og reglulega heyrðist tíst í hjartastuðtæki. Leiðinlegur endir á annars mjög góðu móti.
 
 
 
Skáksalurinn
 
Hef svosem áður talað um skáksalinn en af því litla sem setja mætti út á í þessu móti að mínu mati þá var það tvímælalaust skákstaðurinn. Eins og ég sagði var aðstaða fyrir áhorfendur nánast engin og ein mamma sem átti stelpu sem var að tefla í Noregi 3 varð frá að hverfa þar sem hún komst ekki inn á svæðið þar sem liðið var. Í raun var aðeins hægt að fylgjast með toppborðunum með fáum undantekningum. 
 
Margir kvörtuðu undan þungu lofti á efstu borðunum. Loftræsting var engin í salnum og því þurfti að opna stórar dyr en þá kom á móti að þeir sem tefldu þar var á meðan skítkalt! Yfirleitt vildi þannig til að Afríkuþjóðir tefldu þar.
 
 
Tapað/Fundið
 
Fyrir eina af síðustu umferðunum tilkynnt skákstjóri að farsími hefði fundist í skáksalnum. Eiganda hans var velkomið að nálgast hann hjá skákstjóra. Ekki er vitað hvort símans var vitjað ;-)
 
Ljóst er að einhver hefur komist framhjá öryggisleitinni með síma en svosem gætu verið ýmsar ástæður fyrir veru símans. Um gæti verið að ræða starfsmenn eða einhverja VIP's en svo er alls ekki útilokað að einhverjir keppendur hafi ætlað sér að nota smá aðstoð frá vélrænum vinum sínum ;-)
 
 
Árangur einstakra keppenda 
 
Renni aðeins yfir karlaliðið eins og það stóð sig frá mínum bæjardyrum séð áður en ég fer yfir í kvennaliðið.
 
1. borð Hannes Hlífar
 
Hannes var mjög traustur og mátti sjá glitta í gamla "Nesa" á köflum. Tapaði ekki skák fyrr en í síðustu umferð þar sem hann líkt og flestir náðu sér ekki á strik. Framan af því var hann mjög traustur og vann góða sigra og hélt góðum jafnteflum. Hannes vinnur sér inn 12 elóstig
 
 2. borð Hjörvar Steinn
 
Það er engin tilviljun að Hjörvar er kominn með 2543 skákstig og virðist bara á leiðinni upp. Hjörvar var eini íslenski keppandinn sem tapaði ekki skák. Í raun hefur hann lítið verið í því undanfarið og þarf líklega að fara aftur í meistara Rúnar Sigurpálsson í Íslandsmóti Skákfélaga til að finna tap hjá kappanum! Hann fór taplaus í gegnum mót í Andorra og svona til gamans hreinsaði hann 12/12 í hraðskákkeppni taflfélaga (var samt með'ann í síðustu :-( )  Hjörvar hækkar um 5 stig fyrir frammistöðuna. 
 
 
3. borð Guðmundur Kjartansson
 
Það geta ekki allir átt gott mót og að þessu sinni náði Gummi sér ekki á strik. Gummi teygir sig stundum of langt sem er kostur og galli. Vel má vera að hann þurfi að finna meira jafnvægi fyrir liðakeppnir. Bæði að vera meira solid með hvítu og eins varðandi rútínu. Gummi er manna duglegastur að vinna í sínum málum og ég veit að eftir þessa reynslu er hann bara ákveðnari að koma sterkur til baka og vinna sig inn í liði fyrir Baku 2016! Spakur liðsstjóri karlaliðsins benti einnig á að margir hefðu ekki byrjað vel á sínu fyrsta ÓL!

 
4. borð Þröstur Þórhallsson 
 
Lengi hefur verið talað um hversu góður liðsmaður Þröstur er. Hann sýndi það og sannaði í verki enn eina ferðina. Þröstur hækkaði um 11 stig í mótinu og var manna duglegastur að stúdera og peppa aðra upp. Þröstur átti t.a.m. mjög sterkt jafntefli gegn Ipatov með svörtu sem var mjög mikilvægt og hleypti kappi í liðið í erfiðri viðureign undir lokin. Í lok móts var bæði keppendum, liðsstjórum og öðrum tíðrætt um hversu góður mórall hefði verið í ferðinni og hjá liðunum og algjörlega morgunljóst að það skiptir miklu máli í svona keppnum.
 
5. borð Helgi Ólafsson
 
Helgi var að mörgu leiti óheppinn í þessari ferð og fannst mér hann tefla betur en töpuð stig gefa til kynna. Klaufalegt tap í síðustu umferð sat í Helga enda var það algjör óþarfi og var hann taplaus fram að því. Herslumuninn vantaði í nokkrum jafnteflum en andstæðingur hans varðist vasklega í einni skák peði undir og gegn Skotlandi var Helgi skynsamur og reyndi að tefla til vinnings eins og hægt var innan ramma þess að vera að keppa í liðakeppni. Helgi hefði getað tekið áhættur en hefði þá verið að bjóða upp á möguleika á tapi og kaus skynsamlega að gera það ekki.

Helga varð á orði við upphafi móts við liðsstjóra Dana (Lars Schandorff) þegar hann var spurður hvort hann væri að tefla: "I can still play some chess you know!"
 
Forsendur þessarar setningar hafa ekkert breyst og vonandi heldur Helgi ótrauður áfram að gefa kost á sér enda einn fremsti skákmaður okkar frá upphafi eins og hann hefur margoft sýnt. 
 
 
Ég færi mig þá yfir í kvennaliðið sem ég stýrði.
 
1. borð Lenka Ptacnikova
 
Lenka fór sem fyrr fyrir kvennaliðinu og ótrúlega sterkt að hafa hana alltaf á efsta borði. Að þessu sinni var e.t.v. árangurinn síðri heldur en undanfarin Ólympíumót en Lenka er alltaf "solid" eins og við segjum. Hún hefur átt gott ár og m.a. annars tók hún IM-norm á Reykjavíkurskákmótinu og vann sér rétt til að tefla í Landsliðsflokki að ári.
 
Lítið er í raun hægt að setja út á mótið hjá Lenku. Það er helst að Sarai Sanchez ásamt Venezuela virðist hafa eitthvað tak á Lenku og liðinu okkar en við töpuðum of stórt fyrir þeim aftur 3,5-0,5. Aö öðru leiti voru margar baráttuskákir sem gátu fallið öðruvísi og t.a.m. var grátlegt að fara úr betri stöðu í jafntefli og svo í tap gegn Ísrael. Lenka lenti einnig í því í miðju móti að strákurinn hennar þurfti að fara á spítala og er ég heilt yfir mjög ánægður með Lenku þrátt fyrir að hún tapi 8 stigum í mótinu.
 
Einnig gladdi hún liðsstjóra með því að nota hugmyndir úr undirbúningi fyrir mót í einni stuttri og snarpri skák, sjá neðst í pistli!
 
2. borð Hallgerður Helga
 
 
Hallgerður stóð sig frábærlega á þessu móti og sýndi að hún á að vera mun stigahærri. Hún var eini íslenski keppandinn sem tefldi allar skákirnar og sýndi engin þreytumerki. Ef einhver ætti að gera það væri það Hallgerður þar sem hún á það til að tefla langar skákir ;-)
 
Hallgerður tapaði aðeins tveim skákum gegn sterkum og stigaháum skákkonum en að öðru leiti gaf hún engin færi á sér og hækkar um heil 25 skákstig fyrir framimstöðuna! Hún er þá komin yfir 2000 elóstig þar sem hún á heima.
 
Hallgerður er með eitt traustasta byrjanakerfið af öllum liðsmönnum og þarf bara að vinna í því að viðhalda því og bæta við sig vopnum. Hún er komin með mikla keppnisreynslu og orðin góð í endatöflum enda leita skákirnar oft þangað. Hallgerður þarf að bæta eilítið við sig í taktík til að taka framfarastökk og hækka sig enn meira á stigum en ég tel fyllilega innistæðu fyrir því.
 

3. borð Tinna Kristín
 
Tinna átti nokkuð traust mót á 3. borði og meira og minna vann þær skákir sem til hefði verið ætlast fyrirfram og eins nokkrar sem fyrirfram hefðu átt að vera 50-50 skákir.  Töpin voru öll gegn skákkonum með 2200 stig eða meira og aðeins slysalegur afleikur á móti El Salvador sem hefði mátt ætlast til að færi betur.
 
Tinna getur verið sterk í taktíkinni á köflum og kom liðsstjóra t.a.m. vel á óvart með nokkrum lævísum gildrum þegar farið var yfir skákir eftir umferð. Tinna þarf að styrkja sig í ákveðnum stöðutýpum eða "pósanum" og þá tekur hún líka gott stigastökk.

 
4. borð Jóhanna Björg 
 
Líkt og hjá karlaliðinu náðu sér ekki allir á strik og að þessu sinni var Jóhanna undir getu. Það býr mikið í Jóhönnu og hefur hún margsannað það með góðum úrslitum  Hún lenti í slæmum kafla um miðbik móts en að hluta til höfðu utanaðkomandi hlutir þar einhver áhrif á.
 
Jóhanna hefur á köflum fínt stöðumat og er góð í taktíkinni en hefur glímt við sama vandamál og margir sterkir íslenskir skákmenn hafa oft þurft að glíma við, fljótfærni.
 
Ég geri orð KÖE í kommentakerfi skak.is að mínum: 
  

Það hefur vakið athygli hér heima að sumar stelpurnar okkar hafa verið að klára skákirnar sínar (tapað) með klukkutíma eftir á skáklukkunni (hafa leikið nær viðstöðulaust). Hvet þær til að nýta tímann betur, tefla í botn og hafa gaman af þessu!

 
Jóhanna sýndi engu að síður karakter og kláraði vel með tveimur sigrum í lokin og sleppur því vel stigalega frá mótinu. 
 

5. borð Elsa María
 
Elsa María komst einnig fínt frá mótinu stigalega og hækkar um nokkur stig. Elsa átti sterkt jafntefli gegn Ísrael og vann einnig skákir sem voru mikilvægar í að landa sigri í nokkrum viðureignum eins og t.d. gegn Mexíkó.  Á milli voru tapskákir þar sem Elsa sá ekki til sólar og því mjög sveiflukennt mót hjá Elsu.
 
Elsa getur teflt mjög vel ef hún fær einfaldlega skákstöður. Hún brást hinsvegar illa við óvæntum leikjum í byrjunum þó lítil ástæða hafi verið til. Ég verð að hluta til að taka á mig sökina þar!
 
 
 
Lokaorð

 
Heilt yfir geta bæði liðið verið sátt. Kvennaliðið endaði níu sætum ofar en upphafssætið og kláruðum við í 55. sæti.
 
20140814_174256 
 
Við loka liðskvöldverð fékk kvennaliðið pöntun númer 55, ótrúleg tilviljum en það var einmitt lokasætið í mótinu!
 
Heilt yfir ekki undan miklu að kvarta, góðir sigrar á sveitum á svipuðu róli eins og Bangladesh og Mexíkó og mjög góðir stórsigrar gegn IPCA og IBCA. Slæmu viðureignirnar voru helst gegn Venezuela og El Salvador. 
 
Fyrirfram settum við takmarkið á besta árangur á þessari öld með því að ná í topp 50. Ég taldi fyrirfram að það hefði verið vel gerlegt. Að mínu mati býr mun meira í stelpunum en stigin segja til um. Þær þurfa allar að vinna í sínum veikleikum og geri þær það tel ég þær allar eiga heima yfir 2000 stigum og þarf ekki mikið til! 
 
Fyrir mig var þetta mikil reynsla og ef ég fengi að fara til baka myndi ég gera eitthvað öðruvísi en það á við okkur öll og er hluti af því að læra. 
 
Ég vil að lokum þakka öllum fyrir frábæra ferð og skemmtun. Bæði keppendum, Jóni L, Gunnari og skákstjórum. Reynslan var bæði skemmtileg og vonandi dýrmæt og ég tók mikið út úr þessu. 
 
P1020486 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Síðan

Skák.is
Skák.is

Skák.is, skákfréttavefur Íslands. Gunnar Björnsson er ritsjóri vefsins.

 

RSS-straumar

Erlendar vefsíður

Helstu erlendu fréttasíðurnar

Chessdom

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Chess24

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

FIDE

  • Augnablik... Augnablik - sæki gögn...

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 5
  • Sl. sólarhring: 27
  • Sl. viku: 188
  • Frá upphafi: 8764059

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 155
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband